Blogg

Um Hulk og byssustríð

Mér datt í hug er ég var að horfa á Man of Steel í fjórða eða fimmta sinn (já, hún verður bara skemmtilegri og skemmtilegri), og bandaríski herinn tók á móti Súpermann í fyrsta sinn og beindi á hann vitagagnslausum fallbyssum sínum og flugskeytum, að arfleifðin hefði orðið önnur ef herinn hefði frá upphafi ákveðið að reyna að sigra Súpermann frekar en að gefast upp fyrir honum og treysta orðum hans um að hann kæmi með og í friði. Nær allir Batmann heimar og alla tíð eiga það sameiginlegt að lögreglan er með virka handtökuskipun á hann og sumum jafnvel frekar illa við hann. Thunderbolt Ross hefur skotið á Hulk í 70 ár með vopnum sem hann hefur vitað frá upphafi að munu aldrei granda honum.

Það er í þessu einhver frumefnislegur sannleikur um vopn og stríð. Einsog Nick Fury útskýrir í einhverri Avengers myndinni eru ríkisvopn dagsins til að mæta nýrri hættu, því sjálfsagt trúir hann á að ESB og Nató hafi endanlega afmáð ríkja og trúarbragðastríð, eina hættan sem jörðinni er búin kemur að handan. Á sama tíma veit hann að vopn jarðarinnar eru gagnslaus gagn Þór, Brainiac, Loka, Zod og Úrsu og svo framvegis. Af hverju þá að framleiða þau? Jú, það er sjálfsagt sama ástæðan og stýrir því að Thunderbolt Ross hefur skotið á Hulk í 70 ár með vélbyssum og flugskeytum sem gera ekkert gagn. Hugmyndin gæti verið fengin frá Orwell um eilífðarstríð sem fasta ríkja og samfélaga.

Á sama tíma má spyrja af hverju að þróa betri og betri vopn, kanski réttara að segja tæknilega fullkomnari enda vopn í sjálfu sér aldrei góð, fyrst þeim er ekki ætlað að skila árangri. Það er sjálfsagt önnur og óheimspekilegri ástæða, vopnaframleiðendur fleiri en einn og eðlilega samkeppni þeirra á meðal, manneskjan þótt óendanlega barbarísk, reynir að toppa sjálfa sig og allt sem hún að kemur.

Óvís er sú sem reynir að sigrast á hinu óþekkta, sú vísa fagnar að kynnast því. Viskan hér er á sama level og umfjöllunarefnið. Vísan verður aldrei kveðin, Hulk verður aldrei skotin og geimverur koma í friði ef við ákveðum að óttast þær ekki.

Um kattaárur

Ég heyrði ekki alls ónýlega skemmtilega dellukenningu um að á tilteknum rúmfræðilegum nexusum, sumsé þarsem punktur á þverlínu 1 er gullsnið (eða annað) frá næsta punkti sem er einhversstaðar og punktur á þverlínu 2 er í macchiavellískri fjarlægð frá punkti b á sömu línu, þarsem punktar þessir mætast – þar upplifi kettir sig ósýnilega og leiti þangað ef þeir vilja fela sig. Ellegar að þeir haldi að ára sín sé ósýnileg og þá fara þeir þangað ef þeir vilja fela sig fyrir áruljósmyndurum eða öðru fólki eða dýrum sem sjá árur. Altént, dellukenning en býsna skemmtileg.

Það er samt staðreynd að kettir hafa betri skilning og næmi á árur en tildæmis mannfólk. Ég verð að taka fram að það er snúið að skrifa um þetta af því ég hef ramma tilfinningu um að ég hafi séð þetta einhversstaðar áður á prenti. Þetta er þó ógúglanlegt og aukinheldur fæ ég sömu tilfinningu þegar kemur að einhverju sem ég hef hugsað áður og jafnvel ætlað að skrifa, en ekki gert það. Síðast var það þá ég ætlaði að útskýra af hverju kettir þvælast fyrir fótum manns en hætti svo við af því ég var alveg viss um að Guðbergur hefði þegar skrifað um það. Samt fann ég það hvergi í ritum hans.

En allavega. Þetta er frekar einfalt að sannreyna ef þú hefur aðgang að tveimur eða fleiri köttum. Ef þú fylgist með þeim sérðu að ef einn situr eða liggur og rófan er á gólfinu þá labba hinir kettirnir aldrei beint yfir rófuna heldur taka rúman sveig hjá henni.

Nú er vinsælt að hampa sér á því að trúa engu og slíkt fólk gæti sagt að þetta snúist um virðingu sem kettir sýna sín á milli. Ókei, gott vel, en hverju bera þeir virðingu fyrir? Hvernig skal sannreyna að þeir séu að virða prívat speis annars kattar, frekar en að þeir sjái áru sem þeim finnst þeir ekki geta labbað í gegnum? Á að spyrja þá?

Og hvað er prívat speis annað en ára?

Þetta útskýrir líka hversu öflug móðgun það var þegar Han Solo gengur yfir halann á Jabba the Hut í endurbættri fyrstu Star Wars, og í leiðinni hversu mikil móðgun það var af Lucasar hálfu að bæta þessari senu við.

 

new20autograph51gg5

Smælki úr daglega lífinu í fangelsisgeiranum, og nágrannageirum

Klingon-hjúkrunarfræðingarnir

ég var að ræða við kollega sem vinnur hjá ríkisspítalanum. hann segir mér:

Ein leið til að halda niður launakostnaði á Landspítalanum felst í því að stofnunin er kennslustofnun, sem þýðir að nemar í hinum ýmsustu ummönnunar-greiningar- og lækningafögum eru sendir á milli deilda í “verkmenntun” þar sem þeir eru á engum launum við að vinna 100 til 200 prósent vinnu. Á deildina hjá kollega mínum hafði, í sömu vikunni, komið hópur hjúkrunarfræðinema og einn sjúkraliðanemi. Hjúkrunarfræðingar, háskólamenntaðir eru gjarna einsog vísiterandi gestaprófessorar eða þjóðhöfðingjar, meðan sjúkraliðinn er neðar settur í valdastiganum, með fjölbrautaskólamenntun og sýslar mest með ópródúktífa handfjöllun likamssúrgangs. Sjúkraliðinn var ennfremur lítill að vallarsýn og nokkru yngri.
Hjúkrunarfræðinemarnir eru ekki risavaxnir en ríflegir meðalmenn, og einhverrahlutavegna allir klæddir í níðþungar og stórar skinnkápur, og með þeim tilfinningalega þunga sem fylgir kjarabaráttu þeirra þessa dagana, má segja að sópað hafi að þeim. “Þetta eru Klingonhjúkrunarfræðingarnir” sagði kollegi minn þegar hann sá þá tróna yfir sjúkraliðanum og vísaði í Star Trek: Undiscovered Country, þarsem klingonþjóðin rambaði á barmi útdauða, en var ævinlega stolt og ávallt hávaxin og tignarleg.

Mórallinn í sögunni? Jú, kollega mínum, sem ber mikla virðingu bæði fyrir klingonum og hjúkrunarfræðingum, fannst mjög asnalegt að það væri óviðeigandi að segja stúlkunum þremur, nemunum, að þær litu út einsog Klingonhjúkrunarfræðingar.

Tvímennissalernin

Eftir að skemmtistaðurinn Pexveggssmiðjan setti upp “tvímennissalerni” gerði hinn frægi feministi Stokkhæna úttekt á klósettvenjum kynjanna sem leiddi meðal annars í ljós að:
Karlmenn i beggjakynja biðröð á klósett, stingi oft uppá því að konurnar í röðinni tvímenni til að spara tíma, þetta geri þeir vegna þess að a; þeir trúa því í raun og veru að 2 konur pissi á sama tíma og ein, b, þeir sjá fyrir sér að klósettferðin þróist yfir i gufuheitan lesbíuleik, og c, þeir halda að 2 konur séu fljótari að pissa en ein og noti tímann sem sparast til að stunda gufuheitan lesbísma.
Stokkhæna benti svo ennfremur á að sama eðlisfræðin sé að verki bak klósettferðum kvenna og bak almennum lögmálum einsog einum fallþunga hluta í lausu lofti, það er, fjöldi kvenna á klósetti hefur engin áhrif á pissutímann.

Norrænt skegg og túrkískt

 Norrænir menn, svokallaðir víkingar og væringjar, herjuðu á landsvæði þjóða af safnheitinu Túrkar, einn þjóðararmur undan þeim kominn, heimilaði landhögg á Íslandi nokkrum öldum síðar. Síðan hafa karlmenn af norrænu bergi brotnir ekki getað nálgast karlmenn af litlu-Asíusvæðinu öðruvísi en að fara í meting yfir skeggvexti. Og það er gagnkvæmt, núna síðast í dag kom til mín maður af sýrlenskum ættum og ýjaði að því að ég léti mér ekki vaxa alskegg af því það ber ennþá ungan lit, og er hvergi grátt né hvítt.

Ekki skyldi kalla: “Úlfur, úlfur, úlfur!”

 Ég var í biðröðinni í bónus þegar einhver kallaði “ÚLFUR” yfir alla búðina. ég athugaði málið og sá að þetta var ekki minn ágæti bókmenntakennari sem á til að æpa “ÚLFUR” bæði að fyrirvara og tilefnislausu, þetta var heldur ekki pönkmóðir að kalla á börnin sín. Einhver sagði “maður á aldrei að kalla úlfur” og jafnskjótt svaraði annar að það ætti bara við þegar orðið er tvítekið, og fljótlega ræddu menn hvort það væri þegar orðið væri ein, tví eða þrítekið sem óviðeigandi er að hrópa það upphátt á fjölmenntum vettvangi.

Hrunvaldar póst-hrun

Svona er Ísland í dag, maður er að koma útúr apótekinu og þá rennur hjá risastór jeppi, og farþeginn hendir kínverjum útum gluggann fyrir fæturna á okkur. Það er búið að taka uppaskrílinn útúr flestum aðstæðum þarsem hann getur valdið meiriháttar usla og skaða, en að er samt í honum þessi þörf fyrir að vera óþolandi og hrekkja venjulegt fólk, og þetta er það eina sem hann á eftir.

Kona sem stóð nærri mér spurði sem eðlilegt er: “Er ekki allt í lagi með ykkur?”

Prófin á fæðingardeildinni

 Einusinni voru sagðir brandarar um geðveikispróf sem lögð voru fyrir fólk sem kom inn á geðdeild, ef fólk stóðst ekki prófin var því ekki hleypt út aftur. Nema hvað prófin í þessum bröndurum sneru yfrleitt meira að vitsmunum en nokkrum andlegum truflunum. Með öðrum orðum; geðveikir eru heimskir.

Ég skal segja ykkur einn svona brandara þarsem ég hef fært sögusviðið yfir á fæðingardeildina:

Planinu fyrir framan innganginn á fæðingardeildinni var lokað af með 20 jafnstórum kúlulaga steinum. Kona nokkur var mætt á deildina með ávæning um hríðir, og spurði deildarstjórann um steinana. “Steinarnir eru til að prófa hversu hæf móðir þú ert.” Ólétta konan lyfti fyrsta steininum og spurði svo, ég hafði þennan upp, hvað merkir það? “Þetta er steinninn jafnsterkur, og merkir að þú mátt eignast barn.” Ólétta konan lyfti þá næsta steini og endurtók spurningu sína: “Þetta er steinninn jafnsterkur, og merkir að þú ert jafnsterk og þú varst þegar þú lyftir hinum steininum.” Ólétta konan lyfti þá þriðja steininum og endurtók spurningu sína. “Þetta er steininn jafnsterkur, þú ert jafnsterk og þú varst í tvö fyrri skiptin.” Þá lyfti ólétta konan fjórða steininum og spurði sem fyr. “Þetta var steinninn jafnsterkur, þú ert jafnsterk og áður.”

Þetta hélt áfram og konan lyfti öllum steinunum, með tilheyrandi spurningum. Deildarstjórinn sagði: “Þú ert sterk en alger bjálfi, má bjóða þér að koma með mér á fóstureyðingardeildina.” 

 Flóttamannatúrisminn

 tvennt tel ég að gæti flokkast sem “flóttamannatúrismi”

annars vegar þegar mannréttindabarðir, sveltir og kúgaðir landleysingjar hafa komist til sæluríkisins Íslands, fengið með greiðum og skjótum hætti, landvistarleyfi, menntun og þjálfun í landmenningu og tungumáli, öll tryggingarréttindi einsog húsmæðraorlof og sumarfrí – taka sér frí frá vel launaðri vinnu til að fara með krakkahópinn allan til Benidorm eða Tenerife.

Hinsvegar að Útlendingastofnun selji aðgang að landleysingjunum sem hún geymir í búrum víðsvegar um landið, fyrir feita og ríka borgandi gesti sem vilja kynna sér land og þjóð.

Að hnýta einn “Nelson”

Mér datt tvennt í hug í dag. Fyrst kom nýja starfstúlkan sem mætti með glóðaraugu og umbúið nef, mér til að hugsa um Jack Nicholson, en ég hafði vit á því að þegja um það, talaði þess í stað um MMA allan daginn, og sagði öllum sem heyra vildu að hún hefði lent í rimmu við Gunnar Nelson á Íslenska barnum. Áður var talað um að “hnýta einn Nelson” þegar fangabrögð bókstaflega fléttuðu bardagamennina saman, og Nelson sem er liðugur einsog desmerdýr, er kóngur fléttubragðanna. En í þetta sinn sagði ég öllum að stúlkan hefði bókstaflega “hnýtt einn Gunnar Nelson” í merkingunni að hún hefði pakkað honum saman, þótt honum hefði tekist áður að valda henni þeim andlitsskaða sem minnst er á í upphafi.

Svo neyddist ég til að bíða á biðstofu á níðþröngum gangi, og þótt ég keyrði mig upp að veggnum voru fætur mínir alltaf fyrir þeim sem ætluðu að ganga hjá. Gott að ég er ekki Sigurjón Kjartansson, hugsaði ég. Ætli Sigurjón þurfi annars að bíða á biðstofu?

 Það sem við á í raunveruleikanum, en ekki tungumálinu. 1sta gagg

Brandarinn um kennslu í húmorfræðum, er orðinn ágætlegur ofnýttur, hér hefst nýtt þema: Það sem á við í raunveruleikanum en ekki í tungumáli – fyrsta innlegg:

Það er bannað að leggja við stöðvunarskyldumerki.

 

 Þegar allt hið ómögulega hefur verið útilokað, er hið mögulega sem eftir stendur, svarið við spurningunni.


Smitfaraldur geysar í Fangageymslu ríkisins, fangar sem koma heilbrigðir inn, smitast fljótt og augljóst að smitvaldurinn er á staðnum. Hinn leyndardómsfulli og langfrægi Dr. Hannes er fenginn til ráða gátuna og lækna fangana.
“Þegar allt hið ómögulega hefur verið útilokað, er hið mögulega sem eftir stendur, svarið við spurningunni.” segir svo Dr. Hannes eftir stundarumhugsun og bendir á blóm eitt, með fræbelgjum, sem stendur á borði í matsalnum. “Þar hafiði sökudólginn, fræ páskaliljunnar eru einn mesti ofnæmisvaldur samtímans. “
“En Dr. Hannes, þetta er gerviblóm!” maldaði yfirfangageymsluvörðurinn í móinn.
“Einmitt,” sagði Dr. Hannes, “það gerir það síst hættuminna.”

Gátan var leyst, allir fangarnir fengu sterakrem og inflúensusprautu, og Dr. Hannes hélt aftur á hótelið sitt að bíða næstu ráðgátu.

það sem á við í raunveruleikanum en ekki í tungumálinu. 2nnað gagg

(af starfsmannafundi á endurhæfingasviðinu)

“Gönguklúbburinn er þá ekki ætlaður fyrir legudeildirnar?”

 Íslendingar kaupa kebab

Ég sá myndarlega stúlku á kebabstaðnum, eftir nokkra umhugsun sagði ég við hana: “Hvaðan úr Kîna kemur þú?” – stúlkan leit upp og spurði á móti: “Af hverju heldurðu að ég sé kínversk?” (á íslensku, vitanlega) – “Þú ert að drekka te,” svaraði ég og gaf mig ekki. Stúlkan útskýrði þá að hún væri fædd á Íslandi, ætti íslenska forfeður aftur til gullinhvofta og hún væri aukþess þjóðkunn og landsþekkt. Þetta var Guðrún S. Gîsladóttir

 

Nokkrar athugasemdir frá vini okkar sem vinnur í fangelsi
( hann telur sig vera heilara en er auðvitað ráðinn sem vörður. Það er kanski aukaatriði en konan hans, sem kemur kanski ekki svo mikið á óvart, er að skrifa doktórsritgerð um misheppnaðan húmor, og vinur okkar skrifar reglulega kennslupistla um hvernig skal standa rétt að húmor, það er væntanlega skot á eiginkonuna) 

Kúkur í poka

Ég gekk framhjá leikskóla þarsem jeppling hafði verið lagt uppá gangstéttina, líklega meðan forréttindapakkið fór inn og sótti forréttindadraslbörnin sín. Undir rúðuþurrkuna aftaná hafði einhver krækt glærum poka með nokkrum kúkum.
Fínt, en svo fór ég að hugsa, hvernig er þetta framkvæmt? Er virkilega einhver sem safnar kúkum og deilir á nokkra litla poka sem hann svo tekur með sér á röltið til að finna jeppling sem lagt hefur verið glannalega? Það getur varla verið að viðkomandi hafi pokana eina meðferðis og geri svo stykkin í þá þegar hann finnur einhvern sem þarf að refsa, það er eitt að kúka eftir pöntun en annað og meira og hafa kúkana svona fallega mótaða.
Svo finnst mér hálf máttlaust að nota svona fina kúka, þeir klessast minna og það þarf ekki nema að fjarlægja pokann, þá er þetta horfið.
Svo datt mér í hug að þetta væri hunda eða kattaskítur, dýr borða almennt minna af kemísku eitri og því eru kúkarnir þeirra eðlilegri í laginu, þá er kanski um einhvern að ræða sem fer ekki gagngert út til að refsa glannajeppum, heldur fer út með hund til að leyfa honum að skíta – sér svo jeppling sem lagt er dónalega, og ákveður að sýna eigendunum í tvo heimana. En er það rétt gagnvart hundinum?

Af öðru:
Lögreglan er með bil á Laugavegi alla helgarmorgna, sumsé aðfaranótt föstudags, laugardags og sunnudags, til að sitja fyrir þeim sem reyna að keyra upp laugarveg, það er frá lækjartorgi að hlemmi. Það er því ekki hentugur tími til að spreyta sig á þessu sporti, prófið annan tíma, tildæmis um miðjan dag.

Sjálfhverf hrósþörf

Þegar maður nennir ekki að taka fullan þátt í samfélaginu þá þarf maður að tileinka sér eitt og annað trix til að særa ekki fólk að óþörfu, eða fólk sem á það ekki endilega skilið. Ef maður er svo sjálfhverfur að maður tekur sama og ekkert eftir öðru fólki, þá er gott að hafa kerfi, til dæmis til að hrósa fólki.
Ég er frekar slæmur að taka eftir útlitsbreytingum á fólki, eða þegar fólk hefur sig sérstaklega til, en tölfræðin kennir að konur og jafnvel karlar líka, breyta útliti sínu að miklu leyti á þriggja vikna fresti, og hafa sig til sirka vikulega og því eru 70 prósent líkur, ef þú hrósar konu fyrir að líta vel út, einusinni í viku, að það á við. En þá er best að dreifa hrósunum á nokkrar konur, svo tölfræðilögmálið verði líklegra til árangurs. Það er ágætt að segja eitthvað við karlana líka en í mínu umhverfi getur minnsta metrómennska eða geilegheit skilað manni ydduðum tannbursta í bakið, þannig ég legg ekki stund á það.
Kosturinn við að hrósa konum er síðan að það er allt í lagi að taka feil, því maður getur alltaf bjargað sér með að segja “En þú lítur bara eitthvað sérstaklega vel út í dag” – og þá er allt í himnalagi.
Stundum ímyndar maður sér að maður taki eftir einhverju, í dag hitti ég stelpu og fannst hún gerbreytt, “nei sko, ný klipping” – sagði ég. Hún neitaði því og ég spurði hvort hún væri komin með nýjar augnabrúnir. Ég komst ekki í bakköpplínuna því við vorum komin í hópslagsmál við tryllt glæpagengi.
Þá áttaði ég mig á þessu, ég hélt að ég væri að tala við Eglu, en þetta var ekki hún, þetta var Arabella.

 

Fangarnir koma oft við í mötuneytinu á leið sinni í reykingakompuna. Samkvæmt reglunum má ekki færa leirkersbollana útúr mötuneytinu, þannig þeir fá plastmál til að fara með kaffið og reykja – flestir fangar eru löngu orðnir samdauna reglukerfinu en stundum koma nýir og spyrja afhverju. Í dag kom slík spurning svo flatt upp á einn fangavörðinn að hann gat ekki annað en svarað: “Það er einfaldlega vegna þess að plast bráðnar við mun lægra hitastig en leir.”

 

Nýlega var opnuð sængurálma í fangelsinu, þetta er gert í fullu samráði við færustu vísindamenn og fræðinga, og þau fræði að fyrsta árið hjá móður og barni skiptir meira máli en öll sem á eftir koma samanlögð, þegar snýr að tengslamyndun og þarafleiðandi; að hámarka sig og þroskast sem manneskja. Sængurálma er kanski ofrausn, en vegna plássleysis eru þetta í raun 2 herbergi á almennum gangi.
Ákveðið var því að setja upp bleyjuskiptiborð í herbergjunum tveimur, og síðan hinum öllum líka enda þótti ekki tilhlýðilegt að mismuna föngum og gefa í skyn að sumar mættu eignast börn og aðrar ekki.
Síðan var þessi tiltekna móðir leyst úr haldi og engar sængurkonur aðrar en þær sem liggja alladaga í þunglyndi og fara aldrei framúr rúminu. Því óskaði matsveinninn eftir því, til að uppfylla tilskipun um veganstefnu sem nýlega var gefin út fyrir fangelsin í landinu, að fá að nota bleyjuborðin til að saxa salat, en bs-borðin eru mun stærri en brauðbrettin í mötuneytinu, og þá mátti ennfremur hafa fanga í því að skera niður salat meðan eldhúsið var lagt undir að útvatna sójagrænmetið.
Til að auðvelda skurðinn voru svo festir hnífar (ekki alsóáþekkir þeim sem notaðir eru við blaðabunkaskurð), á bleyjuskiptiborðin, svo gigtveikir fangarnir ofreyni sig ekki við að skera rófur og gulrætur og annað hart.
Allir eru himinlifandi með þetta og yfirstjórn fangelsisins er ævaglöð að öllum  minnihlutahópum (nema líkamskroppurum, það þykir ekki við hæfi að láta þá vinna við matargerð), og aðlútandi kröfum og sérþörfum hefur verið mætt á fullnægjandi hátt.

 

103ja æfing í húmor

Þegar kemur að endurtekingum á bröndurum, skal aldrei endurtaka brandara sem fólk skilur í fyrstu sögn, en ástæða þess að brandarar sem ekki skiljast í fyrstu sögn, eða nokkurntíma, ef útí það er farið, er gott að segja aftur og aftur, er ekki sú að auka líkurnar á því að fólki nái þeim eða hlæi að þeim. Helsta ástæðan er sú að maður vill valda fólki skelfingu, fólk sem skilur ekki brandara verður oft mjög kvíðið og fyllist minnimáttarkennd, einnig að margir óttast þá sem segja óskiljanlega brandara.

Fólk í transi

þegar ég heyri talað um þetta svokallaða “transfólk” þá hugsa ég alltaf um In Transit með hljómsveitinni Saga. Það skýrist að hluta til af því að allt “transfólk” sem ég hef hitt er alltaf á leiðinni með að verða eitthvað annað. Það er því einsog byggt inn í hugtakið að komast aldrei á leiðarenda, einsog gangan langa hjá Roma-fólkinu. Og ég er ekki að segja þetta útí loftið, ég hitti alveg gríðarlega mikið af transfólki, liggur við að mér finnist það stundum leita í mig. Þetta segir sig líka soldið sjálft, þegar viðkomandi er orðið það kyn sem stefnt var að, hverfur transið sem sjálfsmynd og tiltekið kyn verður hin viðtekna sjálfsmynd. Þetta er einsog saga sem allir þekkja en einhver byrjar að segja af því hann áttaði sig ekki á því að það væri óþarfi að segja hana fyren hann var næstum því búinn með hana. Þessutan hrista allir hausinn þegar ég byrja að segja frá Saga. Já

Hvað er “chemtrails” ? 

Þá er loks búið að leysa ráðgátuna um Chemtrails, margrædda. Athygli skoðanda vakti hvað nýburar síðasta hálfa ár hafa vaxið óvenju hratt og örugglega. Það hljóta að vera vaxtarhormón í þessu sem er dreift yfir borgina í gríð og erg. En af hverju vilja ÞEIR, að börnin séu stærri? A; þetta eru íslenskir þjóðernissinnar, með eilífa minnimáttarkennd, og vilja bara að Íslendingar séu stærri. B; menn á vegum pepsi vilja auka umfang Íslendinga, svo kaupi þeir enn meira pepsí, C; þetta er sértrúarsöfnuður blandkvenna að útdeila (bókstaflega), sínu fagnaðarerendi um RÊTTAN þroska barna og næringarskilyrði.

Fagleg framkvæmd hegðunar starfsmanna og notenda

í fangelsinu ræddum við meðal annars í dag, velsæmismörkin varðandi líkamlega snertingu fangavarða og fanga, í stuttu máli; samganga líkamshluta er ekki talin æskileg meðan á dvöl stendur, en má endurmeta við lausn fanga og utan fangelsis. Og ég prísaði mig sælan að þurfa ekki að útskýra hvernig þessu er háttað á dauðadeildinni.

 

konan mín er að skrifa doktorsritgerð um ófullkomna brandara. Dæmi um þá er tildæmis: “Hvað sagði Bruni BB árið 1981? – svar; “I’ve got a thing for chicken.” Það sem er ófullkomið hér er, uppsetningin gengur ekki upp, Bruni hlýtur að hafa talað eitthvað fleira yfir heils árs tímabil, ekki er víst að allir kannist við Bruna í dag, punchline’ið er á öðru tungumáli en uppsetningin og vísar í kvikmynd sem ekki er víst að margir kannist við, og tengingin ennfremur býsna langsótt.
Eiginmanni konu minnar finnst verkefnið útí hött og engir af þessum bröndurum fyndnir.

Nágrannasamfélagið anno domini 3012, (eftir þúsöld af Bestaflokknum)

Uppbygging góðgrannasamfélags í hverfinu mínu hefur heppnast með undraverðum hætti, svo vel að enginn læsir lengur bílnum sínum. Því fer ég með endurvinnsluruslið mitt, plast og pappa, og set það aftur í skottið á hinum og þessum bílum sem er lagt fyrir utan. Reyni að setja ekki oftar í einn en annan, svo að jafnræði sé með öllum.

 

ég hef lengi talið að hin “ýmsu brögð” í sódavatni séu helber blekking, þetta er allt sama vatnið og sú staðreynd að fólk telur sig vilja bláan kristal frekar en grænan, eða annað, er bara til marks um hvað auglýsingar eru mikið greindari og klárari en mannfólkið. en nú varð ég vitni að því þegar kona með kolsvört sólgleraugu sagði afgreiðslustúlku í sjoppu til um hvaða lit hún vildi á vatninu. afgreiðslustúlkan sagði, það er ekki til blár, hann er búinn” – og konan sagði, víst hann er þarna við hliðina á þessum græna.

Nágrannarnir með litla barnið

nágrannar mínir eru með lítið barn og setja það stundum út í garð í vagninum. Í dag voru þau nýkomin úr hagkaupum og höfðu staflað matvörum í vagninn. Nokkrar niðursuðudósir með túnfisk og bréf af úrvalsbeikoni lágu þess vegna í vagninum barninu til fóta, og að sjálfsögðu vildi kötturinn athuga þetta nánar. Nú eru nágrannarnir brjálaðir og halda því fram að kötturinn hafi reynt að éta barnið, heimta að ég setji múl og staðsetningartæki á köttinn – sem auðvitað kostar allt of mikla peninga. Ég er að hugsa um að gefa þeim bónus-plastpokasafnið mitt, það ætti að duga þeim framá næsta ár, þegar barnið vex útúr vagninum.

 

Ég var á símavaktinni í heilarahlutverki mínu, og hafði heyrt og hlustað á vandamál manns nokkurs í röskar fjörutíu mínútur þegar megna spíralykt lagði útúr símtólinu. Eðlilega dró ég þá ályktun að öll vandamál mannsins stöfuðu af því að hann drykki of mikið, og ekki vildi hann neita því. Á eftir útskýrðu kollegar mínir í heiluninni að ég hefði verið að nota nýja símann sem er sjálfssprittandi, það er, á klukkutíma fresti ýrir hann sjálfan sig spritti. Samt sem áður tel ég að ég hafi haft rétt fyrir mér.

Josef K og hröðun tímans

í eðlisfræðinni er gert ráð fyrir því að heimurinn hraði sér eftir því sem lengra líður frá upphafinu, það er frumsprengingunni. einhver gæti svo deilt um hvað það þýði að “heimurinn hraði sér” – en allavega, Josef K sagði mér þessa sögu.
Dag einn fann Josef K fyrir hraðaaukningu alheimsins, hann var að hlusta á góða dægurlagatónlist í heddfónum og heyrði að frá og með þriðja viðlagi, hafði lagið hraðað sér töluvert. Þá fór hann skiljanlega að velta fyrir sér hversu mikið lengur hann sjálfur myndi lifa, og í framhaldinu hvort hann gæti komið því í verk sem hann vildi og þurfti, og hvort það hlytist af því einhver gleði, fyrst allt var farið að gerast hraðar.  Samanber Rhyme of the Ancient Mariner, (Iron Maiden útgáfan) yrði 12 mínútur frekar en 14, og hann yrði 30 sekúndum fljótar að fá fullnægingu, svo einhver dæmi séu tekin. Allt reiknaði hann þetta út, að sjálfsögðu frá þeim tímakvarða sem reikningalistin miðar við og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki lengur, og yrði aldrei framar, tími til að lifa lífinu svo mætti njóta þess.

 

Stóra systir (Khochesj sto ja pokormlju tebja?)
(Kuflklæddur maður með grímu færði mér þessa postillu)

 Helsta ágreiningsefnið þessa dagana er hvort skrifa eigi “stórasystir” sumsé í einu orði, eða stóra systir, í tveimur. Hart er barist, málfræðingar af skóla sem kenndur er við séra Jón í Hofi (oftast Sérajón), segja að hætt sé við misskilningi á því til hvaða orðs “stóra” vísar, ef það stendur ekki eins nærri hinu lýsta orði og hugsast getur. Séra Jóna (þá, iðullega Séra Jóna) vill hafa orðin í sundur, aðgreind eins vel og hugsast getur, enda geti valdahlutföllin milli orðanna raskast, stór gæti fengið meira vægi en systir og þannig kúgað hið síðarnefnda. Er þá gott að vita nákvæmlega hvað er hvað.  Séra Jóna vill reyndar alltaf bæta við (svo hér) í sviga milli lýsingar og hins lýsta – enda er ekki til neitt sem heitir einhlítur sannleikur, og hvort eitthvað sé stórt eða lítið, svart eða gult, heitt eða kalt, er yfirleitt spurning um einstaklings- eða hópbundið álit, skynjun eða trú og alls ekki óefanlegur sannleikur.

 Það sem Séra Jón og Séra Jóna deila ekki um er merking Stóru (svo hér) systur, hvort það er fyrir hana sjálfa eða þá sem umgangast hana, fórnarlömb og kúgara.

Ég ætla að leyfa mér að segja litla sögu. Ég bjó í öðru landi í nokkur ár, og þar sem ég var yfirleitt einn og óbundinn gat ég varla þverfótað fyrir konum sem vildu sjá um mig. Sjáið til, í ýmsum löndum öðrum en Íslandi ríkja enn ævafornar hugmyndir um samskipti kynjanna – þær eru af ýmsum toga, en þarsem þetta er ekki þjóðfræðifyrirlestur, mun ég nema staðar við eina sérstaklega, þá ægigömlu hugmynd að karlar eigi ekki að vera einir. Ef konur sjá karlinn einan, þá líta þær á það sem heilaga skyldu sína að sjá um hann – og um leið og einhver kona, eða jafnvel margar konur, er farin að sjá um hann þá er hann ekki að fullu leyti einn lengur. Það þýðir þó ekki að verkinu sé þarmeð lokið, því um leið og konurnar hætta að sjá um hann þá verður hann aftur einn. Þetta myndi ég halda jafnvel að sé elementary, einsog einhver sagði.

Þetta er yfirleitt ekki vandamál, nema að því leyti að þessa umönnunarhvöt hafa bæði lofaðar konur og ólofaðar, giftar og einhleypar. Og það gefur auga leið að þróunarferlið er ólíkt eftir því sem samfélagsstaða viðkomandi konu er, hin lofaða kona er síður í hættu að lofast þeim karli sem hún annast, en sú útkoma er alltaf í spilunum fyrir hina ólofuðu – en þá breytist eðli umönnunarinnar, skiljanlega. Þetta getur að sjálfsögðu skolast til, lofaðar konur geta verið í vondu hjónabandi og með annað augað opið fyrir stakkaskiptum, ólofaðar konur gætu almennt ekki haft neinn frekari áhuga á karlmönnum en sem nemur því að uppfylla þörf sinni fyrir að annast hann – viðkomandi karl gæti verið siðblindur og virðir hvorki lof né bönd.

Ýmisslegt getur gerst, en yfirleitt gengur þetta frekar snurðulaust svo lengi sem lostinn er annaðhvort lítill eða ekki til staðar.

En í hverju felst þessi umönnun?

Í flestum tilvikum sem ég man eftir, eiginminnið vill oft bregðast þegar hópur umannendi kvenna afnemur sjálfstæði manns, þá hefst þetta með orðunum: “Khochesh sto ja pokormlju tebja?” – sem orðrétt þýðir í talmáli, “Viltu að ég gefi þér að borða?” – en hefur undirmerkinguna, “Viltu að ég fæði þig?” – sumsé í merkingunni, “Viltu að ég ali þig?”, og jafnvel “Viltu að ég sjái um þig?”

Svona byrjar þetta, karlinn veit oft hvaða afleiðingar þetta getur haft, en stundum er hann ægilega svangur – og stundum er hann meðvirkur og vill ekki særa konuna, enda veit hann hve mikilvæg þessi hvöt er fyrir sjálfsmynd konunnar.

Þetta getur fljótt undið upp á sig, konan fóðrar þig, síðan vill hún þvo þvottinn þinn og ræsta íbúðina – áðuren langt um líður dvelur hún meira hjá þér en þú sjálfur. Sem er allt gott og blessað, en þú býrð í rauninni ekki lengur einn.

Þessvegna reynist oft best að leyfa konun að fullnægja þessari þörf sinni fjarri heimili þínu. Þú ferð í heimsókn til þeirra, og um leið og þær sjá hvað þú ert óbærilega einn, er ekki langt í að þær spyrji “Viltu að ég gefi þér að borða?” Þú færð að borða og síðan ferðu. Þú hefur skilað þínu og konan hefur fullnægt sinni þrá. Allir eru ánægðir.

Sumir hafa reynt þetta sama með þvottinn, en ég mæli ekki með því. Það hefur djúpstæðari táknræna merkingu að hleypa konu í sæng þína og lak. En það verður hver að finna sinn veg.

En er þetta systurhlutverk eða móðurhlutverk? Er systirin stór eða móðirin lítil, skiptir það yfirleitt máli? Ég þekkti einn karl sem átti 5 eldri systur, það þarf ekkert að tyggja það að auðvitað sáu þær um hann. Fóðruðu hann, þvógu þvottinn, ræstu íbúðina – og hann var yfirleitt ánægður en stundum vildi hann líka vera einn og sjálfstæður. Það er skiljanlegt.

Allar konur eru mæður, sagði einhver, enda allar mæður konur, allar systur eru konur og þar með ætti lógikin að vera býsna skýr.

Svo má vísa í annan hugsuð sem sagði: “Þótt alvaran hafi oft drepið grínið, þá hefur grínið aldrei drepið alvöruna”.

“Setjum Björk í staðinn fyrir Icesave”

(aðsend grein, samt ekki frá Þráni)

Það hefur lítið farið fyrir merkilegri rannsókn sem nokkrir félagsvísindastúdentar gerðu á misserum innan nýsköpunarramma Hugmyndahúss háskólanna. Reyndar hefur rannsóknin alfarið verið þöguð í hel, en það er saga að segja frá því og verður gert þegar tímabært verður.

Einsog margir vita þá hefur efnahagslegt náttúruskrímsli, sem gengst við nafninu Icesave, herjað á landsmenn um nokkurt skeið. Ríkisstjórnin sem kosin var til að ráða niðurlögum skrímslisins hefur ávallt verið stöðvuð þegar nálgast tekur aftöku og hefur afþeimsökum lengi setið á höndum sér. Eða svo héldum við. Með fjárveitingum til Hugmyndahússins áðurnefnda hefur téð stjórn búið í haginn fyrir alskyns vísindalegar rannsóknir á þessu fyrirbrigði, með það fyrir augum – að ef einhverntíma gengur að ráða niðurlögum skrímlisins, þá megi hafa einhverja hugmynd um það hvernig megi forðast að slíkt skrímsli vakni aftur til lífsins, og hvernig megi þá bregðast við því ef svo gengur ekki eftir.

Komu þá nokkrar hressar stúdínur, ættaðar úr Búðardal, og þurftu að skila rannsóknarverkefni fyrir kúrs í Tölvísindum. Þær þróuðu með sér hugmynd, útfrá amrískum kenningum um viðfangshverfingu í skoðanamótunarskyni, sumsé setja eitthvað sem hefur eingöngu jákvæða eiginleika og tilfinningahleðslu í stað hlutar sem hefur neikvæðar tengingar. Með því mætti milda landann frónsins gagnvart þessu Icesave skrímsli. Lögðu þær til að í spurningum til þjóðaratkvæðagreiðslu, í þingsályktunartillögum, frumvörpum og lögum skyldi heitinu “Icesave” skipt út fyrir “Björk”.

Spurt verði því í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu: “Styður þú Björk?” – eða “Vilt þú að gengið verði frá Björk?” eða “Styður þú Björk eða dómstólaleiðina?”

Stúdínurnar úr Dölunum lögðu þetta fyrir kennara sinn, sem hvatti þær til að sækja um styrk úr nýsköpunarsjóði. Sem þær gerðu, en ekki fyr en þær höfðu bætt við “control factor” spurningu, sumsé andspurningu sem sannaði þá fyrri.

Í “Control” spurningunni var Björk sleppt, en orðið “Jarðskjálfti” sett í staðinn. Því skyldi spurt: “Vilt þú jarðskjálfta?” eða “Vilt þú að jarðskjálfti gangi frá Íslandi”? eða “Styður þú jarðskjálfta eða dómstólaleiðina?”

Í stuttu máli fengu stúdínurnar styrkinn til að haga þetta spurningarferli að skoðanakönnun og var hann svo ríflegur að þær gátu látið færustu listamenn orða spurningarnar svo hámarka mætti áhrif þeirra. Var Guðbergur Bergsson því fenginn til að umorða spurningalistann sem sneri að Björk, og hófst hann á eftirfarandi orðum:

“Vilt þú beygður ái fornra fósturútbera og fóla, fórna samantekinni holdtægju íslenskrar dyggðar og tilviljanakenndri mikilmennsku geóferísks gyðjudóms, Björk sem eilíft sængurver íslenskrar lambahvítu, vona, óska og æpandi “Dismembered” í svörtum toppi bryðjandi tælenskan brjóstsykur…..

með víðlíku áframhaldi.

Jarðskjálftaspurningin var látin í hendur því tatúveraða steramenni sem þá flaug hæst á ljósbylgjum lágkúrunnar, með td þessari útkomu:

“Hey, vilt þú jarðskjálfta?” “Viltu að ég tuffi þig í hausinn eða ætlarðu að taka þennan jarðskjálfta, 1, 2, 3 og málið er dautt. Eða þú!

Könnunin var framkvæmd, með 1000 manna úrtaki úr símaskrá, en það voru ennfremur þeir einu sem voru enn skráðir í þetta plagg, 500 af þeim voru gulsíðunúmer mis-heimullegra sólbaðstofa og orkubótarinnflytjenda. Og einsog stúdínurnar lögðu upp með voru svarendur mun jákvæðari gagnvart Icesave, ef spurt var um Björk í stað Icesaves, og neikvæðir að mestu ef spurt var um jarðskjálfta. Segir sagan að Ólafur Ragnar einn hafi verið jákvæður fyrir öllu sem sneri að auknum jarðskjálftum.

Sagt var frá könnuninni og niðurstöðum hennar á fréttamiðli, undir fyrirsögninni, “Setjum Björk í staðinn fyrir Icesave” – en þá varð allt vitlaust. Fréttin var dregin til baka og daginn eftir var beðið afsökunar á þessu klúra gríni. Koveröppið var að undir fyrirsögninni “Setjum Björk í staðinn fyrir Icesave” hefði verið slísí karllægur pistill þarsem gantast var með það að selja mætti Björk mansali uppí Icesave greiðslu.

Að vanda gleyptu Íslendingar við spinninu orðalaust, og málið lognaðist út af. En sannleikurinn var sá að Búðdælingarnir ungu höfðu lent harkalega í klónum á innanhússpólitík háskólans. Einsog þekkt er er Félagsvísindadeildin alsett krötum sem vilja með hvaða leiðum sem er fá íslending til að mildast í afstöðu sinni til Icesave, en í Háskólaráði sitja fjölmargir varðhundar íhaldsafla sem vilja einna helst að hringli þetta Icesave mál sem lengst. Íhaldsöflin íslensku klöguðu í kollega sína innan Efnahagsráðs Lichtensteindeildar Evrópusambandsins sem gerðu ljóst að aðildarferli að Evrópusambandi stæði hætt ef uppvíst yrði að kratar reyndu að hafa óeðlileg áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna. Reyndar virtist þessi hætta ekki meika neinn sens útfrá áður þekktum skoðunum eða hagsmunum hvors málsaðilja, en engu að síður var farið í aðgerðir til að láta niðurstöðurnar hverfa, og í leiðinni var ákveðið að loka Hugmyndahúsi háskólanna svo ekki mætti ásaka ríkjandi stjórn um óeðlileg afskipti af skoðanamyndandi stofnunum í þjóðfélaginu.

Tölfræðistúdínurnar búðdælsku hurfu og hafa aldrei sést síðan.

En svo mörg voru þau orð!

Um ástæðu Guðs

Sumir velta vöngum yfir uppruna Guðs. Aðrir teldu þá að orðið uppruni ætti hér ekki við, enda guð eilífur – en má ekki allt eins velta vöngum yfir uppruna og endalokum eilífðarinnar?

Alvitur virðist í Vkv. 1 og 3 notað um konur í svanahömum (kvæðisritarinn hefur ekki skilið orðið) og í Helgakviðu Hundingsbana II ávarpar Helgi með þessu orði valkyrju sem ríður loft og lög. Sameiginlegt þessum konum er að þær eru að vísu fagrar og eigulegar, en hafa jafnframt hæfileika sem ekki er mennskum konum gefinn. Í Bjólfskviðu er sama orð, ælwiht, notað um jötuninn Grendil og móður hans; þar er raunar ekki fríðleikanum fyrir að fara, en þó mun eiga að hugsa sér þau í mannsmynd. Af þessu er ráðið að merking orðsins sé ´annarleg vættur´; wiht á fornensku er ´vættur´, en norræna myndin –vitur hefur rýrnað sökum léttrar áherzlu. Fyrri liður al- hefur verið rakinn til rótarinnar í fornu orði í merkingunni ´annar´, á latínu alius, í germönskum málum til m.a. í gotnesku aljakuns (af öðru kyni, erlendur), alja-leikos öðruvísi, í íslenzku el-ligar (að öðrum kosti, annars), í fornsaxnesku eli-lendi ´úr öðru landi´,´útlendur´; þetta síðasta orð var haft um flóttamenn og aðra sem áttu bágt af því þeir voru ekki heima hjá sér, svo að það fékk merkinguna ´aumur´, ´vesæll´(Danir hafa fengið það úr þýsku í myndinni elendig).

(Tvær Kviður fornar. Jón Helgason)

Minnum því að gefnu tilefni á að: “We tolerate anyone, even the intolerable!”

Hinn nýi Narkissos

(úr grískum apókrýfu-annálum)

Narkissos var ákaflega upptekinn af sjálfum sér, hann gat aldrei nálgast aðra á þeirra forsendum og hann gat aldrei sett sig inn í mál annarra öðruvísi en að snúa þeim einhvern veginn að sjálfum sér. Þegar hann hitti fólk var fyrsta spurningin ávallt “hvað finnst þér um mig?”, og hugðarefnum annarra mætti hann á þá lund að það var mikilvægast að hann einn skildi hvað hinir voru að segja og hugsa, eða þá að það sem hinir höfðu fyrir stafni var fyrst merkilegt þegar hann gaf því gaum.

Fólk var leitt á Narkissosi og bað hann fara. Narkissos fór því niðrað tjörn og settist þar til að virða fyrir sér spegilmynd sína, og dáðist að því sem hann sá. Á tjörninni flaut liljublað og tók það til máls og sagði: “Narkissos, þetta gengur ekki, þú mátt ekki vera svona upptekinn af sjálfum þér – þú þarft að lifa og hrærast með öðru fólki til öðlast þroska. Sá sem festist einn inní sjálfum sér verður aldrei annað en steinn sem mosast innanísér, og það gefur auga leið að það er takmarkað pláss fyrir mosa þar, en það getur safnast óendanlegur mosi utaná”.  Narkissos tók þessu heilræði og hætti að vera upptekinn af sjálfum sér.

En meðan hann var í burtu hafði fólkið tekið sinnaskiptum, fyrst var einn sem öfundaði sjálfsánægju Narkissosar, og hve auðfeng hún var og fljótleg, og leyfði sér í ríkara mæli að gleðjast yfir sjálfum sér, og svo annar og svo annar. Svo voru allir orðnir fullkomlega uppteknir af sjálfum sér og Narkissos sá að hann var betri en hinir, enda gladdist hann ekki yfir sjálfum sér – allavega ekki út á við. Hann geymdi ánægjuna inn í sér, ánægjuna yfir því að vera ekki eins sjálfmiðaður og hinir. Hann var vissulega betri en þeir.

En eftir nokkurn tíma fór það að plaga hann að geta ekki sagt neinum hve lítið hann var upptekinn af sjálfum sér, og hvað aðrir voru allir ofsalega sjálfhverfir. Hann tók að þenjast út. Hann varð stærri og stærri og lokum sprakk hann. Hinir lifðu ágætu lífi í sinni takmörkuðu gleði yfir sjálfum sér, allt til dauðadags og eftir þeirra dag glöddust aðrir yfir því að vera til frásagnar um hvað hinir dauðu voru frábærir.

Maðurinn sem kunni ekki að kyngja

Svona heyrði ég þessa sögu. Það var maður í Búlgaríu sem hætti að geta kyngt. Einsog títt er hjá börnum, hafði hann lent í þessu í kringum 5 ára aldurinn – fróðar konur í sveitinni kölluðu þetta hálfeinkennalausa ofsahræðslu, og áttu þá við að óútskýrð hræðsla og kvíði sem hrjáir lítil börn kemur fram í fælni eða vantrausti á eigin getu, og þar sem börnin eru of ung til að skilja slíkt, og hafa heldur ekki breitt svið hæfni til að tapa niður kunnáttu á – eru það slíkar frumfúnksjónir sem skerðast eða verða erfiðari. Alla vega, einsog alsiða er, eldist þetta af börnum og gerði það líka í tilviki þessa manns sem við segjum nú frá.

En svo gerðist þetta aftur þegar maðurinn var orðinn fullorðinn, og stuttu seinna fór hann einmitt að vinna sem vínsmakkari hjá rauðvínsbónda í héraðinu. Fóru nú sömu fróðu konur í sveitinni, þetta eldri, að velta fyrir sér mögulegum ástæðum fælninnar – og komust að þeirri niðurstöðu að það hlyti að tengjast alkóhólisma föður hans, enda hafði maðurinn átt erfiða æsku tengda sjúkdómi föður síns. Og má það vera rétt hjá þeim.

En fælnin kom ekki að sök, allavega ekki í þessu starfi, og nokkru seinna hvarf hún og ekki löngu seinna fór þessi sami maður að vinna sem sjúkraliði.

Um Kára sem klæddi sig kerlingarlega í fötin
aðsent

Við fórum í dag og skoðuðum sýninguna “Með viljann að vopni – Endurlit 1970 – 1980”, eða yfirlitssýningu á listaverkum kvenna á “sögulegum tímamótum kvenfrelsisbaráttunnar” einsog það er nokkurnveginn orðað í auglýsingu.

Það sem uppúr stendur, í fljótubragði, er að það er alltaf eitthvað voða kerlingarlegt við list kvenna. En er það annars eikva að furða?

Í síðustu viku var farið yfir þetta tímabil og list íslenskra kvenna í þætti á rás 1, þarsem talið barst fljótt að því hversu miklu mótlæti og jafnvel fyrirlitningu íslenskar listakonur mættu, þegar þær börðust til álíka mikils rúms og kollegar þeirra karlarnir höfðu. Þáttagerðarmaður rifjaði upp gagnrýni sem merkur rithöfundur hafði skrifað um listasýningu, þarsem sýningin og listakonan voru rökkuð niður og dregin eftir svaðinu rétt einsog gagnrýnandinn væri að reyna að ímynda sér einhverja leðjuglímu til að fýsna sér yfir. Einsog það væri ekki nógu slæmt, þá bætti ekki úr skák þegar upp komst að hvorki var umræddur listamaður til, né hafði þessi sýning nokkurn tíma verið haldin. Að ata eina konu/listamann auri mátti afsaka útfrá smekk eða tilfallandi fyrirlitningu, en þessi árás á hið ímyndaða var árás á heildina, hugmyndina um konuna, og hugmyndina um listakonuna.

Það er ágætt, svo sem – en af hverju er kvennalist svona kerlingarleg? Er hún máttlaus, eru konur of stilltar og prúðar til að gera eftirtektarverða list? Tja, fyrsta verkið sem við skoðuðum var metri sinnum metri, veggteppis með ísaumuðum tveimur göngum, hið efra voru skapa- úr hrosshári hár, og hið neðra fagrlitaðar varir. Næsta mynd var líka píka, en hárið fengið af gömlu hrossi sem var farið að grána í vöngum. Héldum lengra, þarna var daður við kommúnisma – sem sagan kennir okkur að innihélt Pottisma, Stalínisma og Maóisma og allskonar skelfilega aðra isma, þarna eru verk sem fjölluðu um kjara- stéttar- og allskonar baráttu. Máttlaust? Nei, varla.

Sagan segir að auk listamanna sem eyðilögðu bíla hafi frægur listamaður framkvæmt frægt “prumpulistaverk” en það hefur ekki, og væntanlega skiljanlega, varðveist.

Hvað er þá kerlingarlegt við þetta?

Víkur þá sögunni að Kára sem klæddi sig asnalega í fötin sín eftir leikfimina. Kári klæddi sig einhverntíma í þeirri röð að hann fór fyrst í bolinn, síðan sokkana og stefndi í það að klæða sig í nærbuxur þegar einhver veitti þessu athygli. Á þeim tíma var orðið “kerlingarlegt” ekki notað einsog gert er í dag, líklega var sagt, en þó þori ég ekki að slá því föstu, að þetta væri “stelpulegt” eða þá að hann væri “stelpa” að gera þetta svona.

Alheimsorkan forði því að nokkur reyni að finna lógík í þessu, en er það annars eitthvað sérstaklega stelpulegt að klæða sig í þessari röð: “nærbolur, sokkar, nærbuxur” ?

Helst reyndum við að fantasera þetta öfugt, sjáum fyrir okkur  strippara að afklæðast í röðinni “nærbuxur, sokkar, nærbolur”  – ég held að það væri sjón að sjá, og stelpulegt væri það sjálfsagt frekar en strákalegt – svo lengi sem það er kvenmaður sem strippar en ekki karlmaður.

Það er ekki tilviljun að strippararnir hoppi hérna inn hugmyndahlæðið, alheimsorkan forði því að nokkur af systrum mínum taki eftir tengingunni “erótík-stripp” – en ég gæti trúað, með félaga minn Freud að leiðarljósi, að þegar strákunum fannst Kári klæða sig stelpulega þá hafi þeir sjálfsagt verið að klúðra og þvæla þær einkennilegu hvatir sem hrærðu sig innrameð þeim þegar þeir horfðu á vin sinn klæða sig. Því varla gátu þeir, hvorki skilið né viðurkennt fyrir sér það sem líklega var að gerast í raun – og erum við þá hættir að yrkja tyrfið.

Við sláum því föstu að hræðsla karlmannsins við list konunnar, sé tilfærð hræðsla hans við sína eigin samkynhneigð. Hún má alls ekki vera karlaleg, enda er það náttúrlega bara algerleg ókúl og má ekki, og því skal undirstrika að hún sé kerlingarleg, enda er það allt í lagi.

Hvetjum við síðan sem flesta að skoða sýninguna, sem skartar bæði mörgum bestu listakonum landsins og er ennheldur mikilvæg sagnfræðileg heimild.

Fólk sem kýs að vera vitlaust, eða kýs að hugsa sem minnst eða það að forðast spurningarnar
aðsend grein

Viðtökurnar við Expendables hans Stallone koma ekki á óvart – bíóbreiniökin ríghalda í gamlar stereótípur, “Stallone er hálfviti, kann ekki að leika”, gera jafnvel grín að málheltinu hans for good measures, þroskað og vitsmunalegt verður maður að segja. Þetta lepur sauðskríllinn upp úr þeim og verður einhverskonar biblíuleg hjörð af málheltum fasistabullum – ljósið í myrkrinu eru vöðvatröll bæjarins sem taka myndina (og Stallone) á sínum forsendum.

Flestir forðast þó spurninguna sem ætti í raun að vera eina spurningin, “af hverju fannst Stallone tímabært að gera svona mynd í dag, og af hverju fannst peningafólkinu heillavænlegt að hella peningum í svona mynd, og af hverju er svona mynd vel tekið?”

Stallone var að vísu kominn í gang með þetta fyrir nokkrum árum, með Rambó 4 – sem byggðist upp á tveimur köflum, annars vegar mónólógur Rambós sjálfs um að mæta þurfi allri illsku og rangbreytni með fullkomnu miskunnarleysi og gjöreyðingu, og hinsvegar 30 mínútna atriði þarsem Rambó sýnir það í verki hvernig!!!

Rambó 4 var ekkert alltof vel tekið, hún var alltof dimm og mörgum fannst hún “of pólitísk”, átökin í Burma/Myanmar voru ongoing, ekki einsog í 3, þegar sú mynd kom út þá voru Rússar komnir með sitt lið útúr Afganistan. Boðskapur að best sé að gjöreyða vonda fólkinu, vafðist fyrir fólki, sem samt þykist vita hvert vonda fólkið er – en það var alltaf helsti gagnrýnispunkturinn á fjöldamorðsmyndirnar á 9da áratugnum, hugmyndin um að verið væri að nota þær til að stimpla inn “hverjir væru vondir, og hverjir góðir”. Sumir báru því jafnvel við að hún væri of ofbeldisfull, kvikmyndaspekúlantar velta því fyrir sér hvort Stallone hefði ekki átt að klippa slátrunina fyrir PG 13 aðgang, þá hefði hún orðið lukkulegri – sem er náttúrlega sorgleg pæling í sjálfu sér.

Fjöldamorðsmyndirnar hjá Stallone, og Norris og fleirum töpuðu ekki sínu appeali af því að mannfólkið þroskaðist upp úr dráps- og ofbeldisfýsn. Samhliða því sem meiri kaldhæðni og tómhyggja greip um sig, gerðist tvennt; það þótti einfeldningslegt að hafa það á hreinu hver var góður og hver vondur, þetta átti að vera á huldu – enginn gat verið algóður og enginn gat verið alvondur. Sumir þroskuðust þó uppúr ofbeldinu, aðrir þroskuðust yfir í betur skrifaðar kvikmyndir. Sumir horfa næstum því aldrei á kvikmyndir.

Ofbeldinu var ýtt útí kant, þarsem það mátti athafna sig samkvæmt pómóskum forsendum, það stóð aldrei fyrir sig sjálft, heldur var spegill eða vísun í eitthvað sem var spegill og vísun í eitthvað sem var spegill og vísun í eitthvað sem var…..

Síðustu ár hefur ofbeldið smokrað sér inn í afþreyingarmenninguna gegnum reyfarana, nastí krufningar og mastermind seríalkillerar sem áður höfðu sálfræðilegt appeal þróaðist hægt og bítandi yfir í hinn magnaða torture-porn geira. Fyrst fólkið fór í bíó til að sjá 1 og hálfan klukkutíma af pyntingum, af hverju skyldi það ekki vilja sjá góðu gömlu hetjurnar slátra vonda gamla vonda fólkinu, í einn og hálfan tíma, af hverju að hnoða því inn í einhvern dulbúning af “Spielberg gerir upp æsku sína og arfleifð” eða “Scorsese, DiPalma, Stone segja sannleikann um bandaríska drauminn” – til hvers allt þetta flöff?

En þá erum við komin heilan hring, rétt einsog í raunveruleikanum sjálfum – hinn svarthvíti heimur sem við hrærðumst í með Stallone á 9da áratugnum, hvarf í rauninni aldrei, spurningum var bara ýtt til hliðar og þær kæfðar í afhygð og sinnuleysi. Við erum ennþá og aftur orðin við og hinir aftur orðnir hinir, og við hötum hina nógu mikið tilað hlakka yfir því að sjá þá tætta í sundur með risastórri fallbyssu.

Þetta er heimurinn í dag, og þú færð sannleikann hjá Stallone, þarft í rauninni ekkert að túlka neitt eða lesa í – bara hugsa.

Auðmýkt og hjónaband

Aðsent

Það er ekki ofsagt að ótítt sé að almennlegum hugmyndum skjóti niður í kollinn á manni þegar maður á leið um bæinn, en í dag var sumsé opið á milli, orka í loftinu og líkaminn albúinn að taka við og melta.

Það er langt síðan maður lærði að leiða hjá sér leiðinlegt fólk. Fyrir þau ykkar sem telja okkur leiðinlega fólkið, af hverju eruði að lesa þetta – ættuði ekki að leiða okkur hjá ykkur?

Á öðrum hverju götuhorni var búið að stilla uppá myndavélum á fæti, og virtist beint að hávaðaseggjum sem þarna fóru um. Einn var með risastóran gettóblaster, á blasti, og allur búinn bjórdósum, einsog hann væri að fara í bjórstríð. Síðan gekk alsnakinn maður um kolaportið, með skilti en ég sá ekki hvað þar stóð af því ég var svo einarður í því að leiða þetta hjá mér.

Þá kallaði einhver, “jæja, ert þú að fara gifta þig, vinur?” – og skýringin var fundin. Fólkið var ekki beinlínis að reyna að vera með leiðindi, þetta voru það sem kallaðar “steggjanir” – en það virðist ganga útá að láta fólk verða sér til minnkunar á almannafæri. Gott og vel, ég þarf svo sem ekki að hafa neina skoðun á því af hverju fólk skyldi gera sér þetta til skemmtunar – en hvað segir þetta okkur um hjónaband? Hver eru hin lógísku tengsl milli þess að smána sjálfan sig og ganga í hjónaband?

Eminem lét víst hafa eftir sér nýlega að honum fyndist hjónabönd samkynhneigðra sjálfsögð, þarsem allir ættu að eiga jafnan rétt á því að láta sér líða illa. En hver er tengingin milli þess að tapa stoltinu og ganga til sambands við aðra manneskju? Einhver af einskýrlega jákvæðum hug gæti fabúlerað að þetta sé táknræn leið til að sigrast á EGÓINU, því í 100 prósent egói gengur maður vísast aldrei inn í organíska heild með annarri eða öðrum manneskjum. Ég aftur á móti lærði það að samruninn kæmi einna helst til af gagnkvæmri virðingu, ég byði ekki í að ganga til samlags við konu sem liti á það sem “hámarkaða yfirlýsingu mína um að vera reiðubúinn í samband” að ég gengi fullur og leiðinlegur og alsnakinn niður Laugaveg. Þá væri ég kjáni og konan jafnvel enn meiri kjáni.

Það er í raun fullkomlega hræsnarleg afvegaleiðing þegar einhver apar útúr sér að “hjónabandið sé heilagur grundvöllur” sem samfélag mannanna sé reist á, og því jafngildi það samfélagslegu niðurrifi að leyfa tískustefnur hvortheldur það eru hjónabönd samkynhneigðra, fólk sem giftist gæludýrunum sínum eða fólk sem giftist sjálfu sér. Það er önnur hætta sem er miklu útbreiddari og það er móttækileiki fólks til að færa allt niður á plan lágkúrunnar, þetta er ekki spurning um að neitt sé “heilagt” lengur – þetta er miklu frekar spurning um að ekkert má gera af alvöru eða í einlægni, eða af metnaði. Og þetta er ekki afleiðing hruns, brots á samfélagssáttmála eða partur af því fjöldahreyfingardjóki að fólk kjósi að vera “skríll” í einhverskonar “running-gag-langrækni” við pólitíkusa sem hættu að gera greinarmun á “fólkinu” og “skrílnum”. Þetta hefur verið að þróast síðustu 50 árin, ég las um daginn ágætis heimspekiritgerð þarsem fjallað er um þetta að hluta, heimspekin skoðar þetta sem afleiðingu “afnáms” stétta annarsvegar og hírarkíu menningarinnar samkvæmt stéttunum, og líka sem “sigur” auglýsingasamfélagsins – en það þarf ekki endilega að skoða þetta úr fílabeinsturni háfræðanna, fólk getur einfaldlega skoðað sitt nánasta umhverfi og spurt sig sjálft: “Er ég sátt/ur við að þróast ekkert lengra sem mannvera, ætla ég að hlæja að prumpubröndurum alla ævi?”

—————-

Svarta kanserið

Ég er ósköp típískur meðaljón, ég horfi á fótbolta og ég kaupi mér hamborgara endrum og einum sinnum. Ég drekk aftur á móti ekki kók. Það stafar af því a: líkami minn hefur sagt mér að ég eigi ekki að drekka það, b; ég og fleiri eyddum hálfu ári í að bjarga vini sem var að drepa sig á kókdrykkju, hömuðumst á honum einsog her af trúfrelsuðum fíklum, földum það og helltum niður kóki, gleymdum að kaupa það inn fyrir hann – sá einstaklingur hætti að drekka kók og síðan er hann alltannar maður, miklu heilbrigðari og miklu hamingjusamari – c; í síðustu X-files yfirlegu minni gat ég ekki skilið þættina sem sneru að “Black Cancer” öðru vísi en sem gróteska metafóru fyrir kókneyslu (þið sem þekkið Black Cancer undirplottið í X-files, gott, þið eruð gott fólk – þið hin, þið fattið ekki tenginguna, en það er allt í lagi).

Nú snýr því svo við að á mörgum veitingastöðum er boðið uppá tilboð. Hamborgari franskar og kók – og kostar tildæmis 1000 kall, segjum það. Ef þú tekur út kókið og biður um vatnsglas, þá ertu samt alltaf að borga fyrir kókið. Ef þú ætlar að vera sniðugur og pantar einn hamborgara og franskar, þá kostar það meira en hamborgari, franskar og kók. Þú getur ekki skipt kókinu í sódavatn og svo framvegis.

Fólk er oft að kvarta undan því að þurfa að borga fyrir aðra, Sjálfstæðismönnum finnst ómöglegt að skattarnir þeirra fari í það að halda uppi “skrílnum” (sem er náttúrlega bara djók því allir vita að Sjálfsstæðismenn borga aldrei skatta, og þó svo væri, þá sér velferðarríkisstjórnin sem nú er við lýði til þess að skattpeningar fari alveg örugglega ekki í það að borga undir þá sem minna mega sín), Herjar saumaklúbbskvenna og niðursetninga (konur sem vinna garðvinnu!) blogga um það sem mest þær mega að það sé óþolandi að nefskatturinn þeirra borgi niður útsendingar á karlafótbolta. Síðan eru hópar sem kvarta undan því að heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg þeim sem reykja, það sé siðferðislega rangt að almannafé borgi niður heilbrigðisþjónustu þeirra sem gera sig vísvitandi veika.

Hvað með svarta kanserið? Af hverju erum við alltaf að borga fyrir kókistana?

———————-

Avatar

Ég stend við það að flest af því sem Avatar James Camerons segir okkur, var þegar búið að setja fram í mynd Verhouvens, Starship Troopers frá 1997. Allavega dæmisagan um hroka og firringu hvítu herveldanna þegar kemur að því að ráðast á önnur samfélag og hafa þá einu réttlætingu að sá stærri hafi alltaf rétt fyrir sér, sérstaklega þegar búið er að útrýma þeim minni.

En þar með er ekki öll sagan sögð, Cameron bætir hlutum í mixið sem réttlæta fullkomlega þessa endurpakkningu eldri myndarinnar. “Umhverfissjónarmiðin” versus “nýjustu tækni og vísindum”, er einstaklega vel útfærð hugmynd. Tæknin og framþróunin sem gerir hervaldinu kleift að drottna yfir öðrum, og kalla þá í leiðinni villimenn – er nokkuð sem okkar mannkyn er búið að þróa ónáttúrulega í 70 milljónir ára – en það sem þessi tækni færir okkur, það eru villimennirnir með innbyggt í sína náttúru. Allt er samtengt, gras, tré, dýr og menn.

Í endanum er þetta einhverskonar spurning um “hvað er rétt”? Við lifum á plánetu í samfélagi við alla aðra organíska hluti, en heiminum er stjórnað af hagsmunum eins hóps, sumsé mannanna – við getum vissulega fært rök fyrir því að þetta fyrirkomulag sé rétt hvað okkur varðar – en hversu rétt er það á hinn stóra skala?

Posse (1975) (Dæmisaga fyrir nýja og verðandi valdhafa)

Kirk Douglas leikstýrði þessum sérkennilega vestra, og leikur jafnframt aðalhlutverkið, alríkislögreglumanninn Howard Nightingale. Nightingale er gamall hershöfðingi sem hefur hug á að komast í öldungaráðið – og ætlar sér að komast þangað á hefðbundnum haukverjaskap – hann básúnar þörfina á lög og reglu og miskunnarleysi gagnvart lögbrjótum og til að sýna að hann stendur undir því hefur hann lofað að handtaka frægustu útlagana í villta vestrinu.

Þegar myndin hefst er Nightingale að taka þá síðustu, ræningjahóp Jack Strawhorns – Strawhorn er leikinn listilega af Bruce Dern. Nightingale og hans vaski hópur af fulltrúum ná ræningjahópnum, drepa þá alla en Strawhorn sleppur.

Strawhorn fer svo að reyna að finna nýja menn til að ríða með, en Nightingale fylgir honum fast á eftir. Þeir koma allir í lítinn bæ þarsem Strawhorn skýtur fógetann en þegar Nightingale mætir á svæðið er honum tekið með kostum og kynjum. Strawhorn er síðan handsamaður og mikilli veislu er slegið upp til heiðurs alríkislögreglumanninum og kosningaloforðum hans.

Smjaðrið og hræsnin ná svo hámarki í sleikjuhætti bæjarbúa, sem hreyfðu hvorki legg né lið sínum eigin fógeta til hjálpar, karlmennirnir hópast einsog limafagrir lærisveinar fyrirframan kosningaskrifstofu alríkislögreglumannsins, allar ungar giftar og ógiftar konur í bænum heillast af sigurreifðinni og stórkarlabragnum og liggja undir fulltrúunum nánast einsog væru þær á íslensku hestamannamóti.

Þarna er aðeins einn sem efast, einfættur og einhentur ritstjóri lítils dagblaðs, Hellman að nafni – hann efast um heiðarleika Nightingales, sem honum finnst full kostaður af hinu valdamikla Járnbrautafélagi, til að geta sinnt starfi í öldungadeildinni. Sjónarhorn ræningjans Strawhorn kemur einnig fram, en hann lítur á sig sem einhverskonar anarkískan Hött, síðasta heiðarlega manninn í landi sem er óðum að falla undir yfirráð samsteypna og auðhringja. Ritstjórinn vill fá að taka viðtal við ræningjann en Nightingale ritstýrir allri fjölmiðlaumfjöllun og hleypir engum öðrum að.

Tilað gera langa sögu stutta, sleppur Strawhorn úr haldi og fangar Nightingale og heldur honum í gíslingu í bænum – nær svo fulltrúum hans á sitt band með mútum og myndin endar á því að þeir ríða á burt úr bænum sem hinni nýi liðsafnaður Strawhorns, Douglas stendur eftir og gargar en engum þykir lengur söngur hans fagur.

Þetta er vissulega einkennilegur endir á vestra, en myndin átti vísast fyrst og fremst að vera pólitísk/samfélagsleg dæmisaga – Quentin Tarantino hefur verið að sýna þessari mynd áhuga, hún hefur verið tekin aftur til sýninga í “boði hans”. Má þá allt eins spá að endurgerð sé í smíðum – verður sú að vonum meira í umbúðum en inntaki, og því ættu allir helst að sjá gömlu myndina fyrst.

Valdið spillir, alla má kaupa, sá sem ætlar að fljúga til hæstu hæða á líki annars skal vara sig á því að aðrir kunni að vilja gera það sama við hann – fagur söngur Næturgalans er lítils megnugur gagnvart beinhörðum peningum.

Einusinni var óheiðarlegur maður

Joseph L. Mankiewicz var leikstjóri og handritshöfundur, hann gerði ma gömlu The Quiet American, Cleopotru og Sleuth, svo einungis séu nefndar fáeinar sem fólk gæti kannast við. En hann gerði líka mynd árið 1970 sem heitir There Was a Crooked Man. Í henni leikur Kirk Douglas glæpamanninn Paris Pitman sem í byrjun myndar ræðst inn á heimili manns ásamt gengi sínu, og stelur þar úr peningaskáp óskaplega stórri upphæð af peningum. Að ráni loknu er hann fyrstur út og skýtur hina í genginu jafnóðum og þeir koma á eftir honum. Það er við að hæfi að næst þegar karlmaðurinn sem stolið var frá, fer á hóruhús til að þiggja þar ókeypis pípsjó, þá reynist aðalleikarinn í kláminu vera ræninginn sjálfur – og er gripinn höndum og færður fyrir rétt.

Myndavélin hoppar síðan á milli nokkurra ógæfumanna sem allir drýgja sinn síðasta glæp áðuren þeir eru gripnir, og að skerfara nokkrum, Woodward Loperman og er leikinn af Henry Fonda sem er að taka einn ógæfumanninn höndum – sá er Floyd Moon og leikinn af Warren Oates. Skerfarinn beitir nýstárlegum aðferðum og við þessa handtöku reynir hann að fá Floyd til að afvopnast og gefast upp, með því að leggja sjálfur niður sitt vopn. Skerfarinn er skotinn en  Floyd er tekinn.

Síðan er klippt í fangelsið þarsem allur hópurinn er samankominn til að afplána og sumir til að fara í gálgann. Fangelsið er alger vítishola og fangelsisstjórinn kemur fljótt að máli við Pitman og vill semja við hann um að hjálpa honum að sleppa gegn því að fá hluta af ránsfeng hans. Pitman finnst fangelsisstjórinn biðja um of stóran hlut og vill ekki semja. Fangelsisstjórinn vill neyða Pitman til samvinnu og lætur lemja hann á hverjum degi og gera honum lífið leitt á allan annan hátt. Pitman beitir kænsku sinni til þess að vinna fanga á sitt band til að hafa bakland.

Auk fangelsistjórnarinnar er allt meira og minna meinspillt, fangavörður einn er samkynhneigður níðingur sem býður ungum fanga sem á að fara í gálgann, að bjarga sér undan honum með því að veita kynlífsgreiða. Pitman býr til óeirðir í kringum þetta þar sem öll yfirstjórnin er drepin.

Kemur þá til nýr fangelsisstjóri, það er skerfarinn síðan í byrjun myndar. Hann trúir á að fanga megi betra, en til þess þurfi mannúðlegar aðferðir. Hann fær Pitman, sem er orðinn nokkurskonar rottukóngur á staðnum, til að hjálpa sér að endurbyggja fangelsið með hjálp fanganna og bæta þannig vistarverurnar um leið og móralinn í hópnum. Pitman gengst við þessu en er auðvitað með sín eigin plön hvernig hann ætlar að samtvinna endurbæturnar inn í sína eigin flóttaáætlun.

Með mannúðlegum fangelsisstjóra (hann er svo mannúðlegur að auk þess að vilja síður beita byssu, drekkur hann ekki né reykir og hefur andúð á vændiskonunum og léttúðugleik), og samstarfi rottukóngsins er fangelsinu snúið á haus – til verður alveg nýtt samfélag, þarsem allir keppast að sama marki – að gera sínar eigin aðstæður eins viðunandi og mögulegt er. Byggja þeir nýjan matsal, spítala og allt verður hreint og fallegt og öllum líður betur. Vill þá skerfarinn/fangelsisstjórinn bjóða ríkistjóranum og fylgiliði í heimsókn til að sanna að fangelsi séu betur rekin útfrá mannúðlegum sjónarmiðum.

En það er einmitt dagurinn sem Pitman og félagar hafa ætlað sér að sleppa. Á hátíðarsamkundu í matsalnum fer allt í háaloft, fangarnir ná yfirhöndinni og gat er sprengt í vegg og allir ætla út – nema þeir fangar sem hyggjast níðast á kvenkyns meðlimi í liði ríkisstjórans. En þessi flóttaleið er  blekking, fangarnir sem fara þar út eru skotnir niður af fangelsisvörðunum – en Pitman er með annað plan fyrir sig. Hans hópur er í byrjun 8 manns en Pitman fórnar þeim hverjum af öðrum þar til aðeins er einn eftir – sem hann skýtur um leið og þeir eru komnir í frelsið.

Pitman fer strax á stað að sækja ránsfenginn en skerfarinn fer á eftir honum.

Ég læt endinn eftir handa þeim sem vilja sjá myndina.

Það sem er magnaðast við þessa mynd er persóna Pitmans og hvernig Douglas leikur hann. Kvikmyndaáhugafólk segir að þetta sé ein djöfullegasta persónan sem Douglas hefur skapað, og hefur hann leikið allnokkra skúrka – en Pitman er nánast sjarmerandi og trúverðugur myndina á enda. Áhorfandinn fær að sjá hvert ódæðið á eftir öðru, svik og veit allan tímann hvað Pitman hefur í hyggju, en hann líður um allan tímann einsog litfagur snákur – og gleður augað.

Svo er hitt hvað það þessum siðblindingja tekst að áorka, fangelsinu er breytt í hinu bestu betrunarstofnun, og fangarnir hinir eru í raun mikið betraðir þegar uppi er staðið. Þannig reynast umbótahugmyndir skerfarans eiga fullkomlega rétt á sér – en það þarf ekki nema einn snák til að umturna öllu. Og það er ekki svo að Pitman sé að hefna sín á skerfaranum eða neinum öðrum, með því að eyðileggja allt sem var búið að byggja upp – það var bara nauðsynlegt fyrir flóttann.

Í miðju uppþotinu er kraftmikil sena þarsem konan í fylgdarliði ríkisstjórans sér fangana hópast um sig og hún kallar aftur og aftur á skerfarann að bjarga sér, en hann stendur einsog þvara, ráðþrota og fullur vonleysis – hann hélt náttúrlega að hann væri að betra Pitman einsog hina – að Pitman eftir að hafa helgað krafta sína nytsömum verkum og jákvæðum ætlunum, myndi sjá ljósið.

Það er því ávallt hægt að furða sig á því hve gagnlegum og þörfum hlutum siðblindingjarnir geta komið til leiðar, en gott að gleyma ekki dæmisögunni um engisprettuna og sporðdrekann. Siðblindinginn er og verður siðblindingi.

Hverja kalla má fasista

Ég var staddur í hópi fólks um daginn þarsem Latabæjarálfurinn var til umræðu, verk hans og dyggðir í þágu heil mannkyns og heilsu voru mærð í hástert, svo sagði ung kona frá eróbikklúbbi sem álfurinn hafði haldið úti fyrir ungt fólk sem umhugað var um hjarta og hold – en þá tók til máls akfeitur og ófríður strákur sem sat útí horni, og hann spurði: “Var þetta einhverskonar Hitlersæska?”

Feiti strákurinn var nokkuð ungur, nógu ungur til að hafa verið í markhóp Íþróttaálfanna þegar “átakið” hófst – en samt ekki, hann hefur náttúrlega verið of feitur, ljótur og öðruvísi til að vera beinlínis hluti af þessum undraverðu æskulýðskraftaverkum, má allt eins líta að hann hafi verið jafn mikið út í horni þá og þennan dag þegar hann slysaðist til að mæla hug sinn.

Þögn sló á heilu hektarana lands og að lokum settu nokkrir sig í hlutverk umhyggjusamra leiðbeinenda og bentu á að svona mætti ekki segja. – Þú þekkir greinilega ekki íþróttaálfinn, sögðu þeir,  því ef þú gerðir það þá myndirðu ekki segja svona. Þess auk má ekki segja svona. Hitler drap 12 milljónir gyðinga, íþróttaálfurinn er hinn besti drengur, svona má ekki segja.

Gott og vel, það má þá í raun segja svona – bara ekki um íþróttaálfinn. En hvern megum við þá kenna við Hitler, og hver gæti verið hans æska? Segir það sig ekki sjálft að það séu ungir vinstri grænir, enda er pólitískt höfuð þeirra Sóley Tómasdóttir? Það hefur allavega verið í lagi hingaðtil að kenna hana við hverskonar ódæði- og hættulegar stjórnstefnur og hugsjónir, það má segja að hún hati börnin sín, allavega þau brúneygðu karlkyns – ég hef sjálfur haldið því fram að hún hvetji til fjöldamorða á karlmönnum, og svo hef ég held ég kallað hana “ticking dirty-bomb”, sem útleggja mætti ýmist sem “tifandi fýlusprengju” eða “tikkandi kynbombu” – eftir því í hvaða gír maður er í hverju sinni.

Kurteisisreglur og tillitssemi hafa verið óðum að hverfa úr þjóðarsálinni, fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður – sumir vilja að meina að engar reglur gildi lengur þegar hefur verið farið eins með Íslendinga, einsog margir segja að raunin sé, – allir samfélagssáttmálar hafa verið rofnir og liggja lausir, – aðrir segja að sýndarraunveruleikinn og hinn svokallaði veruleiki hafi runnið saman. Það er engin sérstök sæfækenning, heldur þýðir einfaldlega tildæmis, að baknag og skítkast sem fólk taldi sér trú að væri innan marka ef það fór fram á persónulegum blogg- og samskiptasíðum innan “afmarkaðs vina-networks”, er löngu komið langt út fyrir nokkurn “afmarkaðan vinahóp”, ef það þá einhverntíma var þar.

Hver sem ástæðan svo sem er, þá er létt verk að finna 100 góðar og “pressing” ástæður og samþykki fyrir því af hverju ég er í fullum rétti að kalla Dag B Eggertsson hóru. Það er eiginlega svo leyfilegt og eðlilegt að það er í raun ekki vitund spennandi. En á sama tíma gref ég mér mjög djúpa gröf ef ég kalla Einar Örn bestaflokksmann (leiðinlegt að þurfa endalaust að taka dæmi af bestaflokknum, orðið soldið þreytt), Josef Göbbels, en það er eiginlega svo gjörsamlega óleyfilegt og óeðlilegt að það er þannig séð eftirsóknarverðara.

Mál- og þjóðfræðingar eru sjálfsagt fljótir að benda á að merkingarhlæðið sé sitthvað ólíkt, hóra sé svo sundurtöngslað orð að það sé nánast merkingarlaust, en Josef Göbbels stendur enn fyrir sínu og öllum hugsanlegum neikvæðum tengingum.

En það er ekki pójntið. Af hverju má ég ráðast harkalega að Degi en ekki einhverjum öðrum (ekkert endilega Einari, hverjum þeim öðrum sem er “verndaður”?)

Ég hef í starfi mínu oft þurft að fara um landið rúnt og ég hef komið í lítil þétt samfélög, þarsem skilin hverjir mega og hverjir mega ekki, eru svo skörp að það stingur nánast. Þegar fólk kemur utanað inní þessi samfélög og er öðruvísi þenkjandi, vill einhverjar breytingar og hefur sig í frami, þá taka bæjarstólparnir sig saman og ákveða hreinlega að það verði bara að taka uppskafningana og berja þá þartil þeir þekkja sinn stað. Þetta fólk sem passar ekki inní mynstrið, er svo ómerkilegt að það þarf ekki einusinni að mæta því á samræðugrundvelli, bara taka það einsog hverja aðra minka og drepa.

Sumt fólk er svo miklir uppskafningar, svo upptekið af sjálfu sér og svo mikil skrímsli að “fólkið” tekur bara upp með sjálfu sér að kenna þeim lexíuna. Það segir sig svo sjálft að almennar kurteisisreglur fullorðins fólks gilda ekki um slíkt pakk. Ef við þá nokkrum sinnum skyldum hegða okkur einsog fullorðið fólk, ég sé voðalega lítið af því núorðið.

Reykjavík er orðin stærsta kjaftaskerið á landinu. Það hefur eitthvað að gera með að það er búið að loka fyrir globala hugsun og þátttöku okkar, og við höfum “þéttst” saman sem “þjóð” í stað þess að vera alheimsborgarar með sky is the limit markmið og væntingar.

Á sama tíma getur í raun enginn stigið fram í dag og sagt að eitthvað hafi verið sagt við einhvern einn tiltekinn sem varði við meiðyrðalög, og ætlað að gera eitthvað með það. Það eru allir jafn skítsekir, og í raun eru bara tvær leiðir færar; annaðhvort tökum við öll nokkur skref afturábak og hættum persónulegum níð og skítkasti, eða drögum vel úr því að minnsta kosti – eða þá að við sleppum allri hræsni og feik kurteisi, höfum alla jafn réttlitla gagnvart skítnum og köstum bara einsog við viljum.

Ég skal fara fram með góðu fordæmi og mun leggja mig fram við vera ýmist háttvís í orðavali ellegar gera ekki mannamun þegar ég dreifi skít.

Rifjað upp um fórnarlambafræðina
frá ónefndum meðlimi í þungarokksklúbbi gímaldins, en sá ku vera einnig félagi í náttúrulækningafélaginu

Það er ekki úr vegi að hafa nokkra hluti á hreinu þegar maður er fórnarlamb, eða ætlar sér að vera eða verða fórnarlamb. Í fyrsta lagi til að geta “orðið” fórnarlamb þá þarf maður að byrja á því að segja frá – af augljósum ástæðum tekur umhverfið þig ekki fyrir fórnarlamb nema þú segir frá, bæði af því kanski var ekki vitað að eitthvað hafi verið gert á þinn hlut, og líka vegna þess að sem í svo mörgu öðru er mynd annarra af þér grundvölluð á þinni eigin sjálfsmynd – umhverfið lítur því ekki á þig sem fórnarlamb sem þú gerir það sjálfur.

Í The Outlaw Josey Wales leikur Eastwood mann sem er svo eyðilögð mannvera að hann fyrirlítur allt sem lifir, er það undirstrikað snyrtilega þarsem hann ýmist skýtur og drepur allt sem á vegi hans verður, eða hrækir tóbaksslummum á hunda, maura og menn. Wales kemur í útpóst nokkurn, (sem er flókið að þýða nema sem hliðstæðu við neyðarskýlin sem við “eigum” uppá hálendinu, eða áttum alltént, þartil einhver einkavæddi þau), og vill kaupa hest. Á pósti þessum eru níðingar og þrælasalar sem hafa handsamað índjánastúlku, Navahó, og eru að níðast á henni – af þeirri karlmennsku sem fáir geta sýnt nema persónur Eastwoods, ætlar Wales sér ekkert að hjálpa stúlkunni en gerir það svo óbeint þegar hann skýtur níðingana til dauða. Stúlkan, leikin af Geraldine Keams, fylgir Wales og lítur á svo á að þeim sé skapað að vera saman þarsem hún skuldar honum líf sitt – þetta síðasta er náttúrlega líka sérstakt, því Wales lítur á sig sem engil dauðans.

En það er annar índjáni í för, Cherokí, leikinn af Chief Dan Georg, sem Wales hugðist kaupa hestinn fyrir, hann spyr hvað þeir eigi að gera við þessa konu. Þá brestur stíflan hjá Navahóstelpunni, sem þaðan eftir heitir Tunglsskin, og hún fer að segja frá öllu sem hefur fyrir hana komið. Hún talar og talar og Cherókí índjáninn gefst á endanum upp á að þýða fyrir Wales, en Tunglsskin heldur áfram að segja frá og Wales spyr Cherókí índjánann: “Geturðu ekki látið hana þagna?”

Sumsé, það er þekkt úr fórnarlambafræðinni að þegar fórnarlömbin opna sig og byrja að segja frá þá geti þau ekki hætt og vegna málæðis geta aldrei lagað sig alminlega að samfélaginu í kring. Það er samt ekki málið með Tunglsskin, hún talar án afláts nokkrar nætur en síðan tekur hún bara til starfa, fyrst sem lífvörður Wales (lífvörður engils dauðans), og síðan sem bóndi þegar hópurinn sest að á búgarði í Texas.

Ég hef verið að lesa um annað fórnarlamb sem ekki gat hætt að segja frá þegar það var annars byrjað. Í bókinni The Band that Time Forgot eftir Paul Stenning (2004) – segir frá Guns N Roses, en bókin er þótt  nokkurnveginn sentruð á söngvarann, og tekur þann pól í hæðina að söngvarinn hafi verið fullkomlega í rétti að bola öllum öðrum út úr hljómsveitinni, enda sé hann “hljómsveitin” þegar á botninn er hvolft.

Þessi bók er reyndar einstakt dæmi um svokallað pseudo-psycho-babble einsog gerist verst (best?)  meðal bandarískra ævisagnaritara, það er, ævisagnaritarinn túlkar og greinir öll æviatriði útfrá frösum og klisjum úr geðlæknisfræðinni, og setur fram einsog um hrein og klár bókmenntanáttúruvísindi sé að ræða.

Markmið Stennings er greinilega að útskýra að Axl Rose hafi ekki getað nema, og hafi hreinlega þurft að gera allan þann óskunda sem hann gerði hljómsveitinni (og öllum öðrum), og hafi jafnvel verið í fullkomnum rétti til þess.

Stenning útskýrir að Axl hafi verið misnotaður í frumbernsku og það að muna ekki og vita ekki af því hafi myndað í honum reiði og heift sem engin leið hafi verið að stjórna og hafi brotist út á óútskýranlegan hátt. Því hafi hann ekki getað hegðað sér öðruvísi en hann gerði og hefur gert síðustu árin.

Nú gengur maður útfrá því að flestir þekki höfuðatriðin í sögu Guns N Roses, en það er kanski ekki svo, þannig við skulum setja fram smá beinagrind.

Guns N Roses gaf sumsé út plötuna Appetite for Destruction, með lögum einsog Welcome to the Jungle, Sweet Child of Mine, Paradise City – og var feikivinsæl á árunum 1986-1989, var sérstaklega markvert við þetta afrek að Guns N Roses var í grunninn þungarokkshljómsveit, sem nánar tiltekið tilheyrði Glamrokkinu – en þetta var í fyrsta sinn sem alvuru þungarokkshljómsveit náði að brjótast útúr og uppúr sínum jaðarhópi og ná mainstream vinsældum, án þess að svíkja sinn upprunalega markhóp. Hljómsveitin gaf út aðra plötu, millibilsplötu tilað friða aðdáendur þartil þeir gerðu aðra breiðskífu, en sú kom árið 1991 – þá hafði pólitíkin breyst nokkuð mikið innan hljómsveitarinnar, mannabreytingar og það var orðið nokkuð ljóst að það var söngvarinn sem réð ferðinni, hinir voru útskiptanlegir meðreiðarsveinar. Sú plata, Use Your Illusion 1 og 2 seldi held ég mjög vel, sérstaklega í ljósi þess hvað um metnaðarfulla og arty plötu var að ræða. (ég segi arty og metnaðarfull og meina það, fyrir hljómsveit sem er að reyna að fullnægja kröfum mainstreamsins og þungarokksins samtímis, þá tók Axl mikla áhættu með þessari plötu. ef einhver vill kynna sér þetta í fljótu bragði, getur viðkomandi flett up laginu “My world”  sem er rapplag með bassagrunni og undirspili sem hljómar nánast einsog það sem Björk syngur yfir í Army of Me).

Aftur var krafa um að hljómsveitin gerði viðlíka merkilega breiðskífu en hljómsveitin var þegar löskuð af valdabaráttu, og þeir náðu með herkjum að gefa út aðra millibilsplötu, Spaghetty Incident, sem var óður til pönksins og með kóverlögum frá þeim tíma. Þetta átti bara að dekka tímann fram að næstu alvuru plötu, Chinese Democracy en biðin eftir henni varð löng og uppfrá þeim tíma þegar eini upprunalegi meðlimurinn eftir í hljómsveitinni var Axl, héldu flestir að platan kæmi aldrei út. En Axl skilaði þó.

Guns N Roses var hljómsveit öfga og neyslu, fyrirutan heróín og kókaín sem flæddi (eða valt öllu heldur, þetta er ekki vökvi), var dagneyslan á brenndum drykkjum sjaldnast undir tveimur flöskum, mikið partíað og “lausar” konur á hverju strái og slagsmál og fangelsisvist rútína. Lýsingar af þessu tagi virka hjákátlegar í dag, þegar mússikkantar verða að vera ofurskipulagðir múltítaskarar til að komast eitthvað áfram – fylliraftarnir missa hreinlega af lestinni, eða brjótast ekki í gegn – en það er einsog með sögur Gylfa Ægissonar af hópslagsmálum í Ólafsvík á áttunda áratugnum – það hefur heilmargt breyst á 30 árum – þetta var raunveruleiki á þessum tíma.

Auk þessa hefðbundna óhófs dansaði hljómsveitin á grensunni í textum sínum og yfirlýsingum; þeir listrænu tilburðir Axl að tala um niggara, blóðsuguinnflytjendur, helvítis fagga og homma sem dreifa kynsjúkdómum – féllu ekki í kramið hjá öllum, og ekki bætti úr skák þegar hljómsveitarmeðlimir reyndu að færa rök fyrir því afhverju var nauðsynlegt að syngja svona.

Axl Rose tók sína neyslu og öfgar í aðrar áttir, varð ofurskipulagður bisnesmaður og uppfullur af þráhyggju um að komast að því af hver hann er, og af hverju hann hegðaði sér einsog hann gerði. Einhversstaðar ákvað hann að grunnpunkturinn væri frumbernskan og það tímabil sem hann mundi ekki og eftir rannsóknarvinnu meðal vina fjölskyldunnar og ættingja fór hann að sækja allskonar meðferðir sem miðuðu að því að brjóta upp bælingu og varpa ljósi á það sem þar er undir.

Var þetta ágætt, en sú “regressional therapy” sem hjálpaði Rose að finna út hvað hafði komið fyrir hann í frumbernsku, hjálpaði honum ennfremur að fara enn lengra og þegar hann var búinn að kortleggja hver hafði gert sér hvað í fyrri lífum – gat hann í fullum rétti ákvarðað hverja hann ætti að koma vel fram við í þessu lífi og á hverjum hann átti að hefna sín. Milli 92-93 var Rose í dómssal útaf tveimur kærustum, ákæruliðirnir voru í nokkrum haugum – allt frá “alimony” kröfum yfir eitthvað sem réttlætið í LA kallar “sexual battery” – en virðist vera nauðgun, miðað vera lýsingarnar – þessi mál enduðu í einhverskonar utandómssátt. Ævisagnaritarinn, sem fylgir þeirri góðu praxís ævisagnaritara að reyna að fylgja gagnrýnislaust lógik viðfangs síns, útskýrir sem svo að ofbeldi og kúgun á þessum kærustum hafi í raun verið skiljanleg þarsem önnur kærastanna hafði drepið börn Axl í fyrra lífi og hin hafði drepið hann.

Það sem ævisagnaritarinn vill meina að hafi verið nauðsynleg hreinsun og “einræðu-samtalsmeðferð” söngvarans í fjölmiðlum, hafa aðrir kallað “væl” – þarámeðal völtuðu meðlimir Metallicu yfir söngvarann árið 1992 þegar hljómsveitirnar fóru saman í frekar katastrófíska hljómleikaferð. Sagði Hetfield eitthvað á borð við að Axl væri “spoilt brat with too much wealth” – er það væntanlega kaldhæðni örlaganna að Hetfield og félagar enduðu á legubekknum árið 2001-2 og gerðu heimildamynd um það sem mörgum rokkáhugamönnum finnst vera mesta væl allra tíma.

Leit Axl að harmóníu og skilningi hefur dregið hann um allar víðáttur óhefðbundinna lækninga og frá detox meðferðum sem miða að því að losa eiturefni úr vöðvum, sem þar stíflast út af tráma yfir í segullækningar, ennfremur lifir hann ekki hefðbundnu fjölskyldulífi – sem vísast er rakinn vitnisburður um hættulega sérvisku – dregur þetta fram augljósan samanburð við Michael Jackson – Stenning mátar viðurnefnið “Wacko” við Axl við nokkur tækifæri.

Ég veit svo ekki hvort það er eingöngu hlutlaust álit ævisagnaritarans eða hvort það endurspegli líka álit einhvers hóps sem hefur látið sig málefni Axls varða, þegar þeim dómi er kastað fram að hugsanlega sé öll neikvæða hegðun Axl réttlætanleg útfrá því hvað hefur fyrir hann komið.

Þetta er ákveðið stef í fórnarlambafræðinni, sem ekki er einungis þekkt frá öðrum frægum fórnarlömbum einsog Jackson – heldur líka Roman Polanski, sem enn á ný var sakaður um kynferðislegt ofbeldi fyrir skemmstu. Flestir þekkja umræðuna einsog hún er í dag, og síðustu ára – en þar er grunnatriðið að það sé svo langt um liðið að ekki verði í gert, auk þess að þær raddir birtast líka að ásakanir fórnarlambanna eigi ekki rétt á sér þar sem viðkomandi hafa beðið svona lengi með þær. Færri muna að þegar Polanski komst fyrst í umræðuna fyrir kynferðisofbeldi, þá voru margir sem vildu líta til tráma sem hann hafði upplifað í æsku – hann var sumsé í fangabúðum nasista og léku fangaverðirnir sér að því að nota hann sem skotskífu. Vildi enginn réttlæta brot Polanskis, en ýjuðu að því að hugsanlega gæti hann ekki hegðað sér öðruvísi miðað við það sem hann hafði mátt þola.

Nú höfum við bara söguskoðun þessa eina ævisagnaritara, Stennings, sem vill fría Axl ábyrgð á gerðum sínum – en poppstjarnan Axl hefur haldið vinsældum að svo miklu marki að aðdáendur hans hafa þolað honum að hverfa úr kastljósinu svo árum skiptir og ennfremur sýnt þá þolinmæði að bíða í 15 ár eftir nýrri breiðskífu frá honum.

En svo er aftur hitt, hvað ef Axl hefði ekki byrjað að opna sig til að byrja með? Hvað ef hann hefði ekki farið að leita að sannleikanum og tjá sig um hann út í hið óendanlega? Væru Slash, Daffy, Izzy og Steven kanski ennþá í Guns N Roses, og væri hljómsveitin kanski búin að gefa út 30 frábærar plötur? Hefði Axl kanski síður fundið ástæðu til að koma illa fram við alla í kringum sig?

Um ísbirni og aðra birni

Frá ritstjórn

Nú hefur gagnrýnisalda brotnað á vef gímaldin.coms þess efnis að viðmælendur hans séu sérstaklega neikvæðir í garð nýja borgarstjórans í Reykjavík og þeirrar hreyfingar sem að baki hans stendur. Hefur undirritaður verið kallaður ónefnum einsog “andbúsáhaldabyltingarsinni” sem er náttúrlega alveg ótækt. Einn á ritstjórninni var kominn langt á veg með að skrifa leiðara um að það kallaði á meiðyrðamál fyrir dómstólum að saka ritstjórnina um að vera andvíg, stela úr eða hlakka yfir andlátsbúum, hvort sem þau væru tengd “búsbyltingum” eður ei – en sá var stoppaður, af því einhver þóttist vita til þess að Hallgrímur Helgason væri búinn að nota þann brandara. Ekki að það hafi verið sérstakur brandari, en samt.

Við andmælum algerlega allri gagnrýni af slíku tagi. Við viljum frekar benda á að við höfum verið hlynnt þessu ísbjarnarmáli – alveg frá því áðuren það byrjaði, og meirað segja fyr. Annars er skemmtilegt til þess að benda, þarsem eitt okkar ritaði lítillega um nýja uppsetningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni, hér um daginn – að þar er ísbjörn (eða maður í ísbjarnarbúningi, sem leikur ísbjörn) látinn standa fyrir þann óskunda sem Íslendingar hafa valdið nágrannaríkjum sínum í gegnum tíðina. Skömmu áður en Kaupmannahöfn brennur sleppur ísbjörn sem var til sýnis, og meðan borgin brennur sést björninn aftur leika lausum hala.

Nú játa ég fáfræði mína, ekki vefjarins, því ég veit ekki hversu stóra rullu tjáður ísbjörn leikur í upprunalegri leikgerð Kiljans, en útfrá menntuðu geti ætla ég að leyfa mér álykta að leikstjórinn Benedikt eigi heiðurinn af þessu litla, en markverða merki. Hann er auðvitað að tengja efnahagsleg skemmdarverk Íslendinga í Danmörku síðustu árin, við annarsvegar brunann góða og ennfremur hvað það þýddi í heildina fyrir Dani að þiggja þessa “bjarnargjöf” frá Noregskóngi.

Fannst mér þetta óskaplega fögur,  sófistikeruð en merkingarbær mynd.

Og ekki vil ég segja með því að borgarstjórinn, sem strax hefur fengið – að índjánahætti – merkingartengingu við ísbjörn – sé ísbjörn, eða að hann sé neinskonar “ísbjarnargreiði” við borgarbúa – heldur leyfi ég mér ekki að ætla að hann komi til með að valda sérstökum óskunda í Danalöndum. Þótt um leið minnist ég þess að stór hluti háværustu fylgjenda tiltekins stjórnmálaafls, hafi einnig verið hávær í þeim rokum síðustu missera að kenna öðrum löndum um ófarir Íslendinga, og ennfremur æskjað þeim maklegra málagjalda. En það er vatn undir bryggjuna, einsog borgarstjórinn góði gæti sjálfsagt ekki orðað betur.

Nú þurfum við að passa að vera ekki langorðir, því við vitum að kosningastjórinn sofnar gjarna útfrá ofmargorðum greinum – en það sem við vildum helst koma að er að hér er enginn neikvæður útí hið nýja afl. Að sjálfssögðu fögnum við þeim áfanga sem unninn er í því að drepa flokkakerfið – verst að fáeinir ágætir flokkar dóu með þeim alvondu í þessari landhreinsun – en það brýtur enginn egg án þess að búa til ommelettu.

En það sem við vildum helst koma á framfæri er að þótt að sjálfsögðu einhverjar efasemdir hafi verið viðraðar í gegnum tíðina, erum við opin fyrir að sjá hvað setur með nýja flokkinn. Sérstaklega erum við hrifin af uppátækinu “betri Reykjavík” eða Skuggaborginni einsog sumir kalla. Þessi hugmynd finnst okkur alveg prýðileg og mögulega til þess fallin að komast nær vilja borgarbúa í málefnum borgarinnar. Hafandi lesið nokkrar línur og uppástungur af vefnum sjálfum – varð okkur þó hugsað til frásagna Fúkó af geðdeildunum sem hann heimsótti þegar hann skrifaði um geðveikina. Á einum stað segir hann frá nokkrum geðrofssjúklingum sem sátu saman í hóp og skiptust á um að halda innspireraðar ræður. Blaðraði hver og einn lengi og af miklum hita, þótt nokkuð óskýrmælt og tiltölulega samhengislaust, (allir voru að sjálfsögðu svínlyfjaðir)  og hlustuðu þá hinir af apatísku áhugaleysi og zombískum svefndrunga – þartil orðið “ÞEIR” kom fyrir, sem var nokkuð oft. Tóku þá þeir sem hlustuðu, við sér, spruttu á fætur og steyttu hnefum og tóku undir; “já, ÞEIR, helvítis þeir!” og jafnskjótt og orðsins naut ekki lengur við sukku hlustendur niður í áðurnefnt áhugaleysi – þartil “ÞEIR” birtust aftur.

Ef einhver skyldi halda að þessi litla dæmisaga hafi ekkert með málið að gera, getum við nefnt til sögunnar aðra dæmisögu – sem hefur alls ekkert með málið að gera – og fólk getur þá séð muninn. Axl Rose, söngvari í Guns N Roses og Kurt Cobain voru litlir vinir, sérstaklega eftir að Rose bauð Nirvana að fara með sér sem upphitunarband í tónleikaferð, og Kobain neitaði kurteislega. Einhverju sinni á einhverjum stað var Kurt staddur ásamt Courtney konu sinni og nýfæddu barni,  og Axl Rose átti þar leið hjá. Hjónin vildu vera vinsamleg og kölluðu á Rose til að heilsa honum, og þegar hann kom bauð Courtney honum að vera guðfaðir barnsins þeirra. Skipti þá engum togum að Axl Roses umturnaðist og hótaði að drepa þau öll, ellegar Kurt myndi ekki “keep his bitch in place and tell her to shut up”. Á þá Kurt að hafa snúið sér að konu sinni og sagt henni að halda kjafti. Á eftir útskýrði Kurt sem svo að hann hafi skilið sem svo að Rose væri að ögra honum til að bregðast við einsog sannur karlmaður, og að það væri einmitt það sem hann gerði.

Þessi saga kemur málinu alls ekkert við, og þið sjáið væntanlega muninn.

En talandi um áðurnefnda skuggaborg, þá datt mér einungis ein tillaga í hug til að setja inn á vefinn – en hef ekki gert það ennþá af því annarsvegar að mér finnst hún ákveðin þversögn, sumsé núlli sig og vefinn út í einum vetfangi, og hinsvegar af því það er kanski ekki stjórnskipulega rétti vettvangurinn fyrir slíka tillögu. En það er sú tillaga að gengið verði til atkvæða um það hvort flokkarnir eigi að leggja sjálfa sig niður.

En í millitíðinni áfram skuggaborg, og má ekki leysa þetta vandamál með “ísbjörn versus leikskólabörn” með því að annarsvegar verði börnin notuð sem fæði fyrir ísbjörninn eða ísbjörninn fyrir börnin?

Og kúkur og piss

Aðsend grein. Það hefur verið pressað á forsvarsmenn gímaldin.coms að skýra frá hverjir heimildarmennirnir eru, en það er því miður ekki hægt, en munum við þó reyna að veita ópersónulegar upplýsingar og dulkóðaðar, eftir því sem mögulegt er. Sendandi þessarar greinar teljum við að hafi einhvern tíma unnið á Hagstofunni, eða við framboðsbaráttu ýmissa Sjálfstæðismanna.

Í mínu fagi er mikið horft til þess hvað maður skilur eftir sig. Bókstaflega, þótt það hafi einhverntíma verið úrskurðað að það væri kredda að greina mætti alla sjúkdóma, og lesa í sálir fólks – með því að rýna í það sem kemur útúr því, þá er það samt enn við lýði. Ég hef séð greiningum breytt úr Schizophrenia affective, Paranoid Schizophrenic affective og Total Mania affective í “meltingartruflarnir” og “hægðartregða” og læknar sem starfað hafa í faginu í hálfa öld eða meira, blikna ekki einu sinni. Það liggur við að menn sem hafa verið dæmdir ósakhæfir vegna geðsjúkdóms hafi fengið þeim úrskurði hnekkt, vegna þess að þeir voru með harðlífi þegar matið var framkvæmt, það hefur reyndar ekki gerst að ég viti, en það liggur við.

Merkilegt nokk er það atferli “venjulega” eða “heilbrigða” fólksins sem líklega var valt að enduruppgangi úrgangstískunnar. Dæmalaus megrunardella og heilbrigður lífstíll síðustu ára snýst þegar á botninn er hvolft, “í enda alls” um meltinguna og hvernig megi losa allt úr líkamanum sem allra fyrst og greiðast. Allt snýst um hægðir, og það liggur við að dagurinn endi við það þegar maður er búinn að tæma sig, því þá er ekkert mikilvægt framundan fyren næsta dag – þegar næsta stóra losun fer fram. Megrunardellan er löngu hætt að snúast um það hvað maður setur ofaní sig, heldur snýst einvörðungu um hverju maður kemur útúr sér, og hvernig. Í verstu tilfellunum sér maður fólk njúka ristilinn til að skila út þó ekkert hafi verið innbyrt, ef þú étur kílóavís af tópas á fastandi maga skilarðu hægðum einsog þú borðir 4 bicmac máltíðir á dag.

“It is not what you put in your mouth that matters, but what comes out of it!” – svarar Dylan í I am not there þegar Edie Sedwick kallar hann “cocksucker” – ég held ég hafi aldrei alminlega skilið þetta svar fyren ég upplifði þessa brennsludellu í vestrænum heimi, sem á fyndinn hátt samsvarar svoldið efnahagsuppganginum í heiminum síðustu árin, bæði að eðli og tímasetningu dellunnar. Allt snerist það um að brenna og spenna því sem ekkert var í raun.

Ekki fullkomin viðlíking, ég viðurkenni það, en mun gáfulegri en tildæmis dæmisagan um íslenskufræðinginn sem vildi fá að rannsaka merkingu orðsins “fæðingar” sem áhersluaukandi forskeytis. Hans var sú hugmynd að “fæðingar” samanber “fæðingarhálfviti”, þýddi í raun – í nútímamáli, hann hafði safnað fleiri klukkutímum af upptökum af ungu fólki að bera fram orðið, – að vera “rosalega mikill hálfviti”. Orðið sem forskeyti hefði fengið svipaða merkingu og “öfga” eða “ýkt” eða “geðveikt” – og sú merking, samkvæmt framburði, hefði yfirskyggt þá upprunalegu merkingu að “fæðingarhálfviti” væri sá sem væri búinn að vera hálfviti frá fæðingu, sumsé allt sitt líf. Vandinn fólst að sjálfsögðu í því að sá sem hefur verið hálfviti allt sitt líf, eða frá fæðingu, er raunast “rosalega mikill hálfviti” – þannig merkingin hafði þá ekki breyst ýkja mikið, þótt mögulega mætti rökstyðja að annar skilningur væri lagður í samsetningu orða sem nota “fæðingar” sem forskeyti. Sendi íslenskuprófessorinn hann burt með háðsglósum um að “fæðingarþunglyndi” væri sjálfsagt “öfga mikið þunglyndi”, “fæðingargalli” væri “rosalega mikill galli” og “fæðingarlæknir” væri þarafleiðandi “rosalega góður læknir” – og svo framvegis.

Þessi rannsókn hefur síðan aldrei verið framkvæmd, að því er ég veit.

Annað úr heimi læknisfræðanna er munurinn sem gerður er á því að hafa áhyggjur af framtíð og því að hafa áhyggjur af fortíðinni. Sá sem veltir því fyrir sér aftur og aftur, og skoðar oní kjölinn hvað hann muni gera í framtíðinni – hann er skynsamur og ábyrgur og fyrirhyggjusamur. En sá sem festist í því að skoða það sem hann hefur gert, og það sem hefur gerst – hann er fullur af þráhyggju, óheilbrigðum söknuði og svo framvegis. Gerður er greinarmunur á bak- og framvirkum kvíða. Bakvirkur kvíði er nokkurskonar safnheiti fyrir allrahanda andleg mein, og ekki tilviljun að þar komi fyrir orðið “bak” enda orð einsog þunglyndi, jafnan tengd baki og sumsé því sem er fyrir aftan. Svo er merkilegt til þess að líta að framvirkur bakkvíði, sumsé hafa áhyggjur af því hvað maður skilur eftir sig í framtíðinni, þykir eðlilegur og jafnvel eftirsóknarverður – líklega vegna þess að það þykir benda til þess að fólk vilji skilja eitthvað ekstra mikilvægt eftir sig, meðan bakvirkur kvíði í núinu ónýtir og dregur úr verðmæti þess sem við höfum gert, af því þörf til að greina og túlka og skilja og athuga hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi, gefur tilefni til að ætla að það sem gert var hafi verið ófullkomið, eða í öllu falli að við efumst um gildi þess – sem er það sama og að það sé ófullkomið, því ef við erum ekki ánægð sjálf með það sem við gerum – verður enginn annar það, það er merkileg skoðun að það er sjaldnast litið til verknaðarins sjálfs, heldur er álit gerandans látið grundvalla það að almenn sátt geti fengist um að verknaðurinn hafi verið góður, þarfur eða merkilegur.

Og þá erum við komin aftur á klósettið, því utan örfárra ekstremískra frávika, er enginn til frásagnar um lögun og framkvæmd hægða okkar nema við sjálf. En þegar við komum af klósettinu og lýsum því yfir að við áttum góðar hægðir, þá getur fólkið í kringum okkar óhætt ætlað að líf okkar sé gott, og að við séum hamingjusöm af því við erum ánægð með það sem við komum frá okkur.

Að skrifa um það sem annað fólk tekur til sín og finnst gagnlegt og skemmtilegt

eða

Um typpi um ástæður þess að nudda chilípipar inn í forhúðina

Það kom til mín maður og sagði að þetta væru allt ómöglegir pistlar sem eru birtir hérna á gímaldin.com – nú? – sagði ég, hvað er svona ómöglegt? Og maðurinn skýrði.

Fyrirutan það að þetta orðfæri er allt alveg ómöglegt, þungt og tyrfið, ég veit ekki hver þú þykist heldur vera Elías Mar, Didda eða Einar Már Jónsson – þetta er allavega ekki að ganga upp. (Ég gerði eina pínlega lokatilraun til að útskýra að þetta væru allt aðsendir pistlar, sem veffumsjónarmaðurinn þyrfti stöku sinnum að skrifa upp, hvort heldur úr símtali eða af gargi neðan af götu, en ég held að það hafi ekki verið tekið gilt) – já, fyrirutan það allt sem er náttúrlega alveg skóggangssök útaffyrirsig, þá er málefnavalið alveg kolrangt.

Málefnavalið alveg kolrangt? Ég skil ekki, fólk kemur til okkar eða sendir okkur þankabrot um það sem því brennur á hjarta, það eru engin málefni umfram það – við erum ekki í neinni krossferð – þetta er bara einsog allt annað blogg, málefni líðandi stundar.

Maðurinn stoppar sem snöggvast, hann kastar kveðju á konu með barnavagn sem á þar leið hjá. En svo heldur hann áfram:

Þetta er nefnilega alls ekki einsog hvert annað blogg. Þú verður að athuga að það er ákveðin regla í bloggi landsmanna, flokkaskipting eftir flokkum, eða iff jú vill, hírarkíinu í þjóðfélaginu. Málefni Tíbetar eru þannig óskráð en óskorað umráðasvæði þeirra sem hafa stundað Jóga í mörg ár, þeir einir mega skrifa um alþjóðapólitík sem aksjúllí hafa verið mannskildir í Palestínu, þú skrifar ekki um bíómyndir ef það er ekki á tæru að þú ert buff í nokkrum aðskildum költkvikmyndagreinum, og mannréttindi og siðfræði eiga droppát úr guðfræði í HÍ- blogg verða að matcha þeirri mynd sem samfélagið hefur af þeim sem skrifar bloggin, annars, já annars bara eru þau ekki veruleiki.

(Aftur var reynt að benda á að pistlarnir komi víðsvegar að og séu auk birtir nafnlausir – en það mátti sín lítils)

Já, – hélt maðurinn áfram – allt þetta væl um valdið. Hvað í skrattanum þykist þú geta skrifað um valdið? Þú ert ríkið, þú ert the establishment – þú vinnur við að halda hinum frá okkur, og okkur frá þeim. Hvað svo sem þú getur sagt gagnlegt um valdið, getur ekki verið relevant af því þú ert óvinurinn. Þú ert einsog Björn Bjarnason að kenna námskeið um Borgaralega óhlýðni.

(Það virtist vera að þessi tiltekni maður kannaðist við ýmsa af fastakúnnum gímaldins.coms, og sumsé vissi að þeir eru margir hverjir ríkisstarfsmenn og nokkrir tengdir öryggismálum).

Það er ekki hægt að storka hinni eðlilegu skipan bloggakerfisins, meritológían velur viðfangsefnin og blogglesendur velja bloggin eftir því. Eða öllu heldur, þú getur storkað því – en þá er bara enginn sem les neitt sem þú birtir. Eða í öllufalli skilur ekki neitt sem hann les.

En ef það sem þú segir er rétt, segi ég, – hvernig á ég þá að geta sinnt málefnum sem rædd eru á gímaldin.com útfrá því hvaða mynd blogglesarar hafa af pistlahöfundum, ef vefurinn og pistlahöfundarnir kjósa og verða – fyrir öryggis sakir – að vera nafnlausir?

Tja, segir maðurinn, – þú getur allavega ekki fjallað um nein af þessum málefnum sem ég tók til dæmis, en ég veit um eitt bloggsvið sem er ófyllt og þarf eðlis síns vegna ekki að korrespondera við neina aktúela persónu, eða samfélagsskynjun um hana.

Sjáðu, þú gætir tildæmis skrifað um þetta. Síðan sagði maðurinn mér sögu af manni sem ánálgaðist hann vegna nokkurs sem vakti hjá honum óöryggi og ónot – og einsog okkur finnst ruglingslegt að birta 6tu persónu blogg – þá ætlum við samt að gera það af því erum öll af vilja gerð að breyta samkvæmt reglunum í kringum okkur. Nóta ber, að fyrsta persóna hér er sumsé ónefndur málkunningi manns sem við vorum að tala við.

Þetta byrjaði allt með því að ég var að henda í smá rauða baunakássu með bratwurst pylsu. Og ég styrkti aðeins í henni með því að mylja þurrkaðan rauðan smápipar yfir pylsurnar sem ég steikti til áðuren ég bætti baununum útá. Nú veit ég af langri reynslu að maður á ekki að mylja piparinn með fingrunum, þarsem hann sest strax inn í húðina og ef þú síðan nuggar á þér augun eða borar í nefið á eftir – þá verður það óhjákvæmlega mjög sársaukafullt – þótt þú hafir þvegið þér um hendurnar í millitíðinni.

Þetta veit ég allt, en mér hefur alltaf fundist að það sé óheilbrigt að sneiða sér hjá öllum óþægindum í lífinu, sumt hreinlega verður maður bara að þola og maður verður sterkari og betri manneskja fyrir vikið, og stundum getur það verið spennandi. En í þetta sinn þurfti ég að míga og þarsem þetta svæði er jafnvel enn viðkvæmara en augu og nef, þá reyndi ég að halda um typpið eins aftarlega og hægt var, því þurrkaður rauður pipar er svo sterkur að jafnvel lyktin af honum særir mjúku svæðin. Sumsé ég reyndi að vera sem lengst frá sjálfum broddinum – sem er alveg óvarinn, hvaða ályktun sem þið svo viljið draga af því.

En síðan þegar ég ætlaði að borða þá var sviðinn í klofinu svo óbærilegur að ég reyndi aðeins að draga úr honum með því að skola typpið og punginn með köldu vatni í vaskinum – en þá gleymdi ég því að krafturinn úr piparnum var ennþá í fingurgómunum og vatnið sem ég sletti á virkaði því aðeins sem leiðari til að dreifa chilíinu víðar um þetta svæði.

Aftur var þetta býsna óbærilegt og ég henti mér loks í sturtu og kældi svæðið með því að gusa einvörðungu úr sturtuhausnum köldu vatni, og reyndi um leið að hafa hendurnar sem lengst í burtu – hvernig sem svo það átti að geta gengið upp.

Þegar þetta fór allt að verða bærilegra þá sóttu á mig hugmyndir um að ég væri alltof plein kynferðislega. Fólk rekur gadda í kynfærin sín, frystir þau í köldu vatni, neglir þau saman við stóla – og allt er þetta gert til að hámarka einhverskonar ánægju. Nú hef ég alltaf litið á mig sem bærilega sadómasókískan, sbr áðurnefnda hugmynd um að sneiða ekki hjá því sem er óþægilegt – en þarna vildi ég bara sársaukan burt sem fyrst og fann hvorki fyrir neinni ánægju né örvun.

Á þessu stigi var tími kominn að setja punkt og reyna að upphugsa eitthvað pójnt. Þessi þriðji aðili hafði sumsé komið til aðilja 2 (þess sem ég var að tala við) með þessa reynslusögu í því skyni að fá einhverja úrlausn, skoðun eða ráð. Núna var okkur farið að finnast að við ættum að hafa einhverja skoðun á þessu, eða draga einhverja ályktun – enda var grunn pójntið að svona nokkuð væri það sem við ættum að skrifa um – við þyrftum þá að svara því í leiðinni og útbúa úr því einhverskonar dæmisögu sem gæti verið gagnleg heildinni.

Ég spurði því manninn hverju hann hefði svarað manninum. Hann sagðist hafa hlegið að honum og kallað hann hálfvita. En hann hefði komið með þessa sögu til okkar af því við værum þekkt fyrir umburðarlyndi og jafnaðargeð.

Við afturámóti, drögum þá ályktun að þessi dæmisaga útskýri nauðsyn að gera greinarmun á því kynferðislega sem er fyrir þig sjálfan og því sem er til endursagnar. Því það sem er til endursagnar getur verið heillavænlegt sem frásögn í hópi og til að marka þér einhvern sess meðal félaga þinna – en um leið getur það verið hvorki ánægjulegt né að neinu leyti örvandi fyrir þig persónu- eða líkamlega.

Á sama tíma finnst okkur einhvernveginn einsog þetta sé ekki málefni sem hentar okkar sérstaklega vel.

Segjum nei við femínisma/feminisma/femenisma

Aðsent

Mentor minn og meistari skrifar þarfa grein á blogginu sínu í dag þarsem hann reifar ástæður fylgishruns Vinstri grænna í borginni. Og hann er spott onn sem æ, hann segir kjósendur hafa refsað flokkinum fyrir

“…að velja sér oddvita sem ófær er um annað en að leggja einatt, með þindarlausu offorsi, kvenpíslarvætti og helmingaskipti kynjanna að jöfnu við kvenfrelsi og afgreiða, eins og hún eigi persónulega einkarétt á hugtakinu, alla aðra túlkun feminisma sem ranga.” (sitatus felis katus)

sem er allt gott og blessað nema við tökum strax eftir því að Davíð aðgreinir sig vi/eljandi frá frágreindum kvenarmi með því að rita “feminismi” en ekki “feminísmi” einsog mér skilst að hafa verið ályktað á landsfundi feminísta strax árið 2000. Þetta er mjög koggnitíft merki hjá Davíð, enda veit hann vel að feminístar skiptast í allavega fjóra flokka og bera þeir sín merki í réttrituninni á sama hátt og refsifangar í Síberíu. Fyrir utan áðurnefnda feminísta, sem er hópur kvenvarga af báðum kynjum, fædds um og í kringum 1980, má nefna næstu kynslóð þar á undan – sem Davíð tilheyrir, og líklega ég líka, eftir því hve mörg mannsár mér eru talin – þessi hópur telur sig sjálfsögðu vita betur hvert megininntakið í feminisma er og hafnar því alfarið að um feminísma sé að ræða. Í þriðja stað er hópur grænmetisætna og skinnrokkara sem aðhyllist femenisma – þeirra áherslur eru mikið til þær sömu og hjá áðurnefndum hópum tveim nema hvað sá síðastnefndi hefur á stefnuskránni að reyna að vinna sem flesta til lags við femenismann, frekar en að fæla frá. Í fjórða stað má svo telja einhver knippi af mussuhippum og sósjaldemókrötum sem vilja frekar fara í störukeppni við kóbraslöngu en að mynda slík orð á munni hvortheldur feminísma eða feminisma eða femenisma.

En þetta er tómur formalísmi og tjær ekki á hann orðum fleiri.

Síðan segir Davíð um þá söguskoðun hvortveggju, að VG sé ekki hluti af fjórflokkakerfinu, og/eða að það sé ekki til neitt sem heitir fjórflokkur. Davíð bendir á það sem augljóst er að VG sé einskilgetið afkvæmi Alþýðubandalagsins, og færir fyrir því allgild rök að þótt sá flokkur hafi aldrei að kjötkötlunum komist, sé ábyrgð hans síst engu minni um það hvernig fyrir samfélagi okkar er komið. Líklega er það álíkt og með inngróna ábyrgð eineltisbarnsins á því að hinir krakkarnir leggja það í einelti. En hugsum ekki um það meir.

Svo segir Davíð, og þetta finnst mér besti parturinn í greininni:

“VG er nefnilega eins og matrixið við hliðina á matrixinu, sérútbúið fyrir þá sem verða að hafa það á tilfinningunni að þeir séu ekki í matrixi. Þeir eru frávikið sem tölfræðin gerir ráð fyrir og tekur með í reikninginn. Þeir eru lopapeysuhippahólfið í kerfinu sem þjónar þeim tilgangi að þeir sem eru á móti kerfinu geti verið hluti af því án þess að fatta það.” (velocius quam asparagi coquantur)

Þarna gæti Davíð ekki ratast á munn réttar, nema hvað hann gerir aðeins of lítið úr atriði sem þó skín úr skrifum hans. Matrixin tvö eru auðvitað misstór, og þetta er mjög mikilvægt. Því allir tilheyra einhverjum hópi alveg sama hve einstaka þeir telja sig, paranójd megalómanarnir lifa einungis í þeirri trú að þeir standi einir gegn heiminum af því þeir hittast sjaldnast hina sem hugsa alveg eins. Vissulega er litla matrixið sem léttradikalir vinstrimenn hafa búið til um sig, hópur – en það má ekki gleyma að hann er agnarlítill – og þótt á tyllidögum sé flott að lýsa því yfir að maður sé mikill umhverfissinni eða jafnréttissinni, þá stækkar litla VG-matrixið lítið við það þegar til lengdar er litið. Stór matrix hafa sjaldnast aðra stefnu en að útrýma litlu matrixunum, og litla matrixið er kanski ekki besti vinur stóra matrixins en það litla getur í raun aldrei látið sér dreyma um mikið meira en knýja fram minniháttar breytingar í stóra matrixinu.

Förþermor, fyrst við erum á annað borð komin aftur í lærða skólann – þá reyndist hinn svokallaði “raunveruleiki” Morfeusar, Trinity og Neo vera annað matrix þegar uppi var staðið – sem hið diviníska plan gerði ráð fyrir að ætti alltaf að starfa við hlið stóra matrixisins. Og gleymum því ekki að Messías tilheyrði litla Matrixinu, gildir þá einu hvaða Messíasar við vísum til.

Breska hljómsveitin The Clash var alltaf mjög komplexuð yfir sinni og afstöðu rokksins til konunnar. Allir þekkja söguna af því þegar Joe Strummer breytti lagi Mick Jones “I am so bored with you, babe” í “I am so bored with the USA” – útfrá kennisetningu pönksins um jafnrétti allra og því að útrýma ætti karlrembunni í rokkinu. Minna þekkt saga segir frá því þegar The Clash áttu að spila í Amríku, líklega í kringum 82, og bókarinn þeirra vildi gera vel við þá og fyllti hótelherbergin þeirra af vændiskonum. Segir sagan að meðlimir The Clash hafi beinstífir af hugsjón getað lýst því yfir að “This is not the way the Clash operates”. Á sama tíma voru þeir allir rokkskólaðir og hin estetíska kvenfyrirlitning var föst við þá einsog rauði búningurinn á jólasveininum. En mikið fannst þeim gaman að lýsa því yfir hvað þeir voru jafnréttissinnaðir þegar gáfust tækifæri til.

Þarf ekki að vera eitthvað pójnt?

Jú, ég held að pójntið sé að það væri farsælast fyrir alla að hætta bara þessu 17júní fjallkonudaðri við feminíska hugsjón, fyrst það er ekkert á bakvið það. Ekki nema fólk kjósi heldur að lifa í hræsni, það er svosem skiljanlegt, svona rétt einsog til er fólk sem velur að búa á Blönduósi, ekkert út á það að setja. Í húsi VG eru margar vistarverur, ein þarsem helmingur ríkisstjórnarinnar kúrir og tryggast að hafa sem fæst orð um það hvaða hugsjón hann fylgir – í annarri eru maóistar og svo framvegis – en sú vistarvera sem virðist hýsa hvað mest af nýju fólki og nýjum hugmyndum eru femínistarnir í borginni sem í ljós hefur komið að enginn vill upp á dekk. En eigum við þá ekki bara að segja það einsog það er, í stað þess að styðja þá um leið og við styðjum þá ekki?

Já, og hina stórfínu grein Davíðs má lesa á bloggi hans hér:

http://deetheejay.blogspot.com/

Forsvarsmaður frábiður sér allar athugasemdir um rétt- og rangritun, svo og ásakanir um stagl, orðskrípi og skrúð. Greinin er birt einsog hún kom send.

Að láta berja sig til að skemmta öðrum
Aðsent

Þótt hvorugt sé í frásögur færandi þá förum við Ingvar E. Sigurðsson oft í sund, ekki saman en samt í sömu laugina – og virðist tímaplanið hjá prófessjonal leikurum og öryggis/lífvörðum svipað, því hvorugur okkar fer á hefðbundnum sundlaugartíma og einsog áður segir erum við yfirleitt á sama tíma á sama staðnum. Þessi síðasta fullyrðing kann að virka einkennileg fyrir mann sem yfirleitt er ekki til, en í innri og hlutfríari merkingu orðanna meikar það fullkominn sens.

Og þarsem persónufriðhelgi er ekki til lengur í þessu landi, þarsem útsendarar bankakerfis elta skuldarana 24/7 með myndavélum til að skjalfesta lífmynstur þeirra og falda fjármuni, sé ég enga ástæðu til að segja ekki frá því að meðan ég geri öndunaræfingarnar mínar í gufunni þá er Ingvar yfirleitt að gera Tajmahonggong æfingarnar sínar. Við blasir þá náttúrlega að við erum nógu nálægt hvor öðrum til að vera sýnilegir, hvor öðrum.

Fyrir einhverju síðan tók ég eftir því að Ingvar var mjög marinn á bakinu, og þegar ég lagði saman 2 og 3 áttaði ég mig á því að meþódistinn Ingvar léti húðstrýkja sig í alvuru á hverju kvöldi þegar hann léki Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni – gerði ég upp við mig að tími væri til kominn að láta af kergju í garð íslensks leikhúss, og fara að sjá Ingvar á sviði, enda hafði kergja mín lengst af verið komin til af því að mér fannst leikhúsfólk ekki taka listgrein sína nógu alvarlega – en af þessu dæmi mátti ætla á annan veg.

Ég ætla ekki að láta uppi, nákvæmlega í hverju misskilningurinn var fólginn, en læt nægja að taka fram að sú húðstrýking sem ég bjóst við að þar færi fram, var öllu öðruvísi. En sýningin er afbragð í alla staði og textinn rennur oní mann einsog hunangsvodki. Leikstjórinn, Benedikt, hefur valið fullkomið jafnvægi milli húmors, grótesku og alvuru – og hvert hlutverk er einvalið.

Það er svo líka í fullkomnu samræmi við sýninguna að það skuli koma á daginn að íslenski þrællinn Ingvar, lætur ekki húðstrýkja sig á hverju kvöldi til að þóknast útlendum agentum – þótt ávallt sé vafaatriði hvort ég heldur er útlendur agent eða Íslendingur, eða alls ekki til. En ég er allavega útlendingur í þessari borg einsog súfistinn sem vildi ekki drekka nýja vatnið – en ég get, hvers svo sem skoðanir mínar teljast, sáttur tekið íslenskt leikhús í sátt – og óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með þennan þjóðararf.

Áfram skoðum við valdið, hver eigi að hafa það og hvort eigi að vera vald “yfirhöfuð”

Síðast heyrðum við frá tukthúslim, en nú er það lögreglan sem talar. Góðkunningi minn hjá löggunni, sem nýtur nafnleyndar, var að rifja upp um daginn hina ágætu mynd Judge Dredd frá 1995, eftir Danny Cannon (vá, þvílíkt nafn). Cannon þessi gerði vel með Dredd en virðist ekki hafa náð að fóta sig í feature kvikmyndum, hefur aftur á móti leikstýrt öðrum hverjum af vinsælustu lögguseríum síðustu ára, Csi, Csa, Csu og svo framvegis. Flestir muna eftir Dredd, hún var gerð eftir bærilega vinsælli teiknimyndaseríu sem aftur var kanski síður þekkt en eitt stakt lag sem hljómsveitin Anthrax samdi útfrá henni. “I am the Law” af Among the Living. Allavega, Judge Dredd kómixið gekk á hápunkti hins einkennilega nýfasisma sem USA dreifði um heiminn milli 80 og 90, og virtist hvorutveggja furðulega nátengdur uppgangi ísraelskra peningamanna í Hollywood og aukinni útþenslustefnu í heilaga landinu. Sorsar mínir segja að kómixið hafi átt að vera ádeila á alræði og fasisma, en ég sá það svo sem aldrei og hygg að fæstir Bandaríkjamenn hafi túlkað það þannig heldur.

Atriðið sem var til umræðu hjá félaga mínum, sem er hasshundinn í endurhæfingu bæðevei, einhver kjáninn tók með sér gítar niðrá hverfisgötu og var að lakka hann og mála á milli vakta, og hundurinn tapaði lyktarskyninu – ótrúlegt, en svona gerist.  En atriðið var sumsé þegar Dredd tekur kóna nokkurn fyrir umferðarlagabrot, en kóninn er með dólg og kemur svo í ljós að þetta er siðblindur umferðarlagasíbrjótur, Dredd dæmir hann og tekur nokkur skref aftur á bak, stillir byssuna sína á “grenade launcher” og sprengir bíl kónans í loft. Vissulega hörkuleg aðgerð, en manninum var ekki við bjargandi og von til þess að bílleysið og biðin eftir nýjum bíl fengi hann til að taka afstöðu sína í umferðinni rækilega til endurskoðunar.

Þessi réttláti, en hryssingslegi dómur Dredd er síðan notaður gegn honum – hann er freimaður fyrir morð og hörkuleg og einörð afstaða hans er notuð til að sýna fram á hve gerráður hann er, ósveigjanlegur og öltimeitlí; ranglátur.

(Hér er algerlega sleppt úr þætti persónu Diane Lane sem spilar höfuðrullu í þessu atriði sem fleirum í myndinni. Þetta er gert af hvorutveggja einskærri rætni og fullkominni fyrirlitningu gagnvart konum, og sérstaklega konum í lögreglunni).

Gott og vel, segi ég. En af hverjum erum við að rifja upp Judge Dredd og þetta tiltekna atriði?

Jú, félagi minn hafði átt leið hjá bílaplani þarsem planið var svoaðsegja autt, en þar hafði bílstjóri lagt bíl sínum, ekki í stæði, heldur í götuna sem er til þess að keyra um planið og raðir þess.

Þetta er  svo fullkomið tillitsleysi, segir hann, og heimska – og svona heimska, að því svo auðvelt er að bæta úr henni, sýnir að manneskjunni er fullkomlega sama að heimska hennar komi niður á öðrum. Svona fólk, er auk þess að vera óforbetranlegt ekki hæft um að eiga bíl.

Þannig best væri að sprengja bílinn? spyr ég.

Lögreglumaðurinn þegir, hundurinn ýlfrar og er orðinn sár í tungunni eftir að hafa sleikt á sér rassinn linnulaust í fjóra tíma. Hann veit ekki að hann er hreinn fyrir löngu.

Af “nímenningum” félagslegu óréttlæti og lögleysum
Þetta fékk ég sent anóním, undir var eingöngu skrifað “Af hrauninu”

Það er mikið skrafað um nímenningana sem fyrr, alltfrá því að Rúv diskúteri það á morgnana að það sé röng íslenska að tala um nímenninga, yfir í að þetta sé angi af alþjóðlegu samsæri anarkísta. Í einum hópi virðist vera útbreidd skoðun að verið sé að taka lítinn hóp fyrir til að gera að “dæmi fyrir hina. SS að burtséð frá öllu lögum og réttlæti verði ríki og dómskerfi að sanna áþreifanlega að “stjórnleysi” beri afleiðingar.

Nú er ósköp auðvelt fyrir mettan millistéttarmanninn í lazyboystólnum norpandi yfir facebook meðan hann horfir með einu auga á Pál Óskar útlista hvað Evróvisjón er frábært, að hneykslast og láta öllum látum yfir óréttlætinu í stjórnkerfinu – það er takmarkað gagn að þeóretískum dómum um hvað sé rétt og hvað er rangt frá þeim sem aldrei upplifa neitt ranglæti.

Ég sit á hrauninu, í gömlum leðursóffa sem fíknitrúfrelsaðir öfuguggar ánöfnuðu fangelsinu í viðleitni til að skvera sig fyrir almættinu, með gamla ibm tölvu sem var gerð upp á verkstæðinu, og mig langar soldi að segja ykkur hvernig þetta er.

Þetta er nákvæmlega einsog í skólanum; þar er sjaldnast sá tekinn sem óhlýðnaðist, og aldrei allir sem að máli komu ef brotin frömdu hópur. Það er alltaf einhver tekinn sér. Ég veit þetta sem nemandi og sem kennari, sem þátttakandi í samfélagi dæmdra sem ódæmdra, og svo er þetta líka “the story of my life” Kennarinn, kóngur í sínu litla ríki, er prinsippmaður – hann verður að taka einhvern fyrir – annars er blekkingunni um aga og lögmál skólastofunnar hnekkt. Þetta geta verið hans prinsipp, eða prinsipp stofnunarinnar sem hann er skuldbundinn til að verja. En af hverju getur hann ekki tekið alla, eða allavega þá eða þann sem sök átti? Jú, það er pólitík – það er pólitík skólans og pólitík félagslegra samskipta. Sumt fólk er hreinlega varið, charmed, einsog segir á útlenskunni – kanski eru foreldrarnir fyrirmenni, kljárkar, biskupar, forsetar, femínistar. Kanski er foreldrið ofstopamaður sem kennarinn vill ekki mæta á foreldrafundum, kanski er foreldrið félagslega sterkara en kennarinn og stofnunin og kemur til með að vinna í öllum deilum. Stundum eru nemendur félagslega sterkari en svo að kennarinn þorir að fara í þá, því ef hann tapar þá hrynur veldi hans og hann er útskúfaður.

En prinsippin þarf að vernda, annars er starfsgrundvöllur kennarans hruninn – einhver þarf að gjalda. Þá er auðvelt að taka einhvern sem á nóneim foreldra, hefur engan stuðning úr hópnum eða einhvern sem svarar ekki fyrir sig, eða svarar vitlaust ef útí það er farið. Það er pólitík valdsins og samfélagsins gegn þeim sem er utan valds og hóps.

Og þetta er ekki bara í kennslustofunni, þetta er mynstur allsstaðar í samfélaginu þarsem hópar myndast. Prinsipp kóngsins í kennslustofunni verður prinsipp bjúrókratans hjá saksóknaraembættinu, allt einelti og baktal hvortheldur á kaffistofum fóstra eða í vinnulager á Kárahnjúkum  verður til af þessari meinsemd.

Óréttlætið er ekki “þetta ríki” gegn tilteknum hópi þegna sem hefur aðra skoðun, þetta er raðmynstrað óréttæti sem er bundið í samfélagsgerð okkar, klíkusamfélag, ættarsamfélag, veruleiki sem markast af skoðunum þeirra sem eru félagslega færastir. Þetta er “the dark side” af samtakamættinum.

Álykta má tvennt um lögleysuna sem nú fer fram fyrir dómstólum. Og aftur tökum við dæmi úr kennslustofunni: Bekkurinn og óhlýðnast og farið er yfir strikið, einhverjum þarf að refsa svo stofnunin haldi andliti gagnvart  múgnum. Valið stendur um, a, verðandi handboltalandslið, dætur sigga sveins, syni óla G og náfrænda Einars Þorvarðarsonar, b, bóhemana með sitt verbalitet og tengslanet, og c, þunglyndu goþstelpuna sem situr útí horni, dóttir tveggja dauðra fíkla, á enga vini og segir ekki neitt. Get the point?

Annað er ef þú veist að það má níðast á þeim sem eru utan samfélags,  liggur þá ekki beint við að níðast á anarkístum? Eru þeir ekki á móti samfélaginu og öllum stofnunum þess? Má ekki reikna með að þeir hafi ekkert bakland ef á þá er ráðist?

Í þriðja stað, getiði skoðað persónulega þætti þeirra 9 sem voru valdir tilað “líharveiósvalda” brotið. Er þetta viðkunnanlegt fólk? Myndirðu bjóða þeim í fermingarveisluna hjá dóttur þinni? Eru þau hrokafull, eða hlæja ekki að bröndurunum þínum?

Reginmisskilngurinn í þessu öllusaman er að gelta eftir einhverju réttlæti. Það er ekkert réttlæti, vissulega eru til einhver blúprint af einhverju sem á að heita réttlæti,  forskrifað af Jahve, Aristóteles eða Múhameð, eftir því hvert þú hallast – en þessi blúprint mega sín lítils gegn skítapakkinu sem ægir af útum allt. Samfélagsgerðin elur á því versta í manninum og svona kemur það fram.

Það verður aldrei neitt réttlæti meðan skítapakkið stjórnar í krafti félagslegra klókinda, og það verður alltaf skítapakk meðan samfélag býr það til. Og ég verð alltaf á hrauninu, alveg sama hvar ég er!

Hver á að fara með valdið?

Aðsend grein, höfundur óþekktur

Ég var að horfa á ágæta mynd Mike Figgis frá 1990, Internal Affairs. Kanski hef ég dottað undir endann en ég var ekki viss hvort það hefði komið fram hvort aukapersóna sem var skotin fyr í myndinni, hefði lifað af. Má vera að það hafi verið skilið eftir opið til túlkunar. Ástæðan fyrir því að afgreiða það þannig gæti hvorutveggja verið að það var hreinlega svo í handritinu eða atriði sem skýrði þetta hafi endað á klippigólfinu. Ég sá fyrir mér að ef maður skyldi nú hafa samband við Mike Figgis, eða handritshöfundinn Henry Bean og bara spyrja hvort þessi aukapersóna lifði eða dó, og svarið væri “hún dó” – og afhverju var það ekki tekið fram? “Jú, það var í fyrsta klippinu en því var hafnað af “stjórnhópnum” (control-group), og myndin var endurklippt svo það gæti verið opið til túlkunar einsog áður kemur fram.

Gott og vel. En hvað segir þetta okkur um hver er hin eiginlega saga?

Ef Neil Young gefur út plötu með lagi sem almennt þykir ómöglegt, og aðspurður segir pródúserinn að á síðustu stundu þurfti að lækka lagið niður um 2 bil svo aðal gítarhúkkið kæmi rétt út en á sama tíma hentaði sú tóntegund síður raddsviði Youngs, “lagið er miklu betra” segir pródúserinn, það bara virkar ekki á plötunni. Hvaða lag, spyrjum við. Lagið sem hljómar á plötunni, eða eitthvað lag sem ekki var tekið upp?

Annað gott dæmi er biblían, á unglingsárum mínum heyrði maður oft um að þegar klerkar þurftu að ansa fyrir þversagnir í Biblíunni björguðu þeir sér fyrir horn með að vísa í óútgefna viðauka, Apókrýfu til að sanna mál sitt, eða til að slá ryki í augun á leikmönnum sem ekki höfðu aðgang að Apókrýfutextum, sem á þeim tíma voru á bakvið lás og slá í Páfagarði. Biblían einsog önnur skáldverk er stakur gjörningur og þarf að aðgreina orginal textann frá aragrúa breytinga sem geta komið fram í ólíkum útgáfum. Það eru alltaf einhver móment þarsem skoðun eða yfirlýsing verður final, ef þú kommenterar einhverja vitleysu á Facebook þá stendur sú skoðun (fyrir þeim sem lesa hana allavega, og sérstaklega fyrir þann sem kommenterar), frá og með þú ýtir á enter, alveg sama þótt þú dílitir færslunni nokkru síðar eða breytir henni á einhvern hátt. Það er auðvitað hægt að skipta um skoðun og fyllilega leyfilegt að öllu leyti, en það verður að vera einhver tilfinning fyrir að eitthvað sé final – að hlutirnir endurspegli einhvern fasta. Það er ákveðinn hornsteinn í orðaskiptum og samtali mannanna.

Þetta er auðvitað trúarlegt í grunninn, krafan um “orginal heimild” er spurning um galdraþuluna logos. Líkt og Logosið verður til af sjálfu sér, verður upprunalega heimildin – atburðurinn sjálfur, að sama leyti til af sjálfum sér. Atburðurinn gerir sjálfan sig að “atburðinum”. Síðan eru til hundruð milljón útgáfur, túlkanir, útlagningar á því sem logos skapaði – en þær verða aldrei neitt annað en þær eru og draga aldrei sjálfan grunninn í efa.

Það eru góð dæmi um þetta í kómixheimum, þarsem heimilt er að gera alskonar krossóver, spinn og tilbrigði við þegar þekkt stef. Það er ekkert vandamál fyrir Batman áhugamann að fella það við sína hugmynd um “söguna um Batman” að það eru til ólíkar upprunasögur, bæði fyrir hann og Robin og Jókerinn – það er líka ekkert mál að bæði sé til Batman sem lýtur realískum skáldskaparlögmálum, það er ekkert ofurnáttúrulegt við hann, hann er bara leynilögreglumaður í skikkju og berst við samskonar glæpamenn og við þekkjum úr raunveruleikanum – og að það sé líka til Batman sem hittir reglulega Súpermann og Hulk og fer til Mars eða dvelur í parallel-raunveruleika. Svo hefur Batmann verið drepinn oftar en einusinni, og hann hefur sagt af sér og látið arftaka sínum eftir búninginn.

Ég hugsa að Batman áhugamenn leysi þetta annarsvegar með því að þeir líti á einhverja tiltekna útgáfu sem “hina einu sönnu” eða orginal og því sé hitt bara listrænar útfærslur sem engu breyti um það sem er fast. Eða þá að orginallinn sé ekki nein sérstök saga heldur bara hinn erkitípíski grunnur.

Þetta er kanski fyrst og fremst auðvelt af því þetta er fagurfræði, en hvað gerum við við þetta í raunveruleikanum? Hvernig veljum við “hvaða útgáfa” er “rétt”?

Í máli nímenninganna svokölluðu kemur þetta upp aftur og aftur. Það virðist enginn vita nákvæmlega hvað gerðist, hvorki þegar ráðist var inn á Alþingi né hvað gerðist þegar farið var fyrir dóm. Fréttablaðið segir eina sögu, Mogginn aðra, Eyjan enn annað og Pressan eitthvað allt annað. Allir eru í uppnámi yfir því hverjum eigi að trúa en sjá? Það eru til vídeóupptökur af þessu öllu. Eftir 2 vikur af deilum og rangfærslum og múðri um það hvort það var ilmkerti, kjarnorkusprengja, einn kínverji eða 4000 tonn af kínverjum sem sprungu í fordyri Héraðsdóms, þá kemst maður að því að það er til vídeóupptaka.

Hérna erum við aftur á móti komin að því að það skiptir ekki máli hvað orginal heimildin segir þegar málið er af hugmyndafræðilegum toga og við höfum þannig séð þegar myndað okkur skoðun.

(Hlýtur það ekki að segja okkur að öll trúarbrögð sem hafa einhvern fastan texta fyrir sína trú, séu reist á sandi? Trúin núllar út frumheimildina og frumheimildin afsannar  trúarbrögðin?)

Hérna klofnar samfélagið í harðlínumenn og ….? – kanski betra að segja “sanntrúaða” og “ósannfærða”? Það virkar reyndar ekki heldur því hinir ósannfærðu eða efahyggjumennirnir eru alveg jafn fastir í sínum kreddum. Þetta endurspeglar skoðun hins vinnandi meirihluta á auðnuleysingjum, bóhemum og atvinnumótmælendum, eða endurvakið kommahatur sem beint er gegn anarkistum og þeim sem kaupa ekki ríkið. Eða skoðun x-files unnenda sem vita að “even though the state isn´t up to anything, it has to be up to something”

Ég hafði þann heiður nýlega að ræða lítillega við lögreglumann þarsem fram kom að sá tiltekni lögreglumaður hafði takmarkaðan áhuga á að kynna sér til hlítar hver málsstaður gagnrýnenda væri. En er það skrítið? Það sem bindur saman nímenningana og hópinn sem fylgir þeim er gagnrýni á valdstjórnina, og löngun til að breyta henni eða leggja af. Og maður hlýtur að ganga útfrá því að allavega ein af ástæðunum sem fær fólk til að ganga í lögregluna er sú að það trúir á nytsemi valdstjórnarinnar. Ekki gengur fólk í lögregluna útaf háum launum, sporslum og fríðindum, eða þægilegum vinnutíma.

Sömuleiðis hafa “mótmælendur” lítinn áhuga á að kynna sér málsstað valdstjórnarinnar, enda líta mótmælendur margir hverjir á að valdstjórnin sé í eðli sínu röng – og af hverju skyldi maður reyna að skilja lógikina í málsstað sem maður veit að er rangur í eðli sínu, og þarafleiðandi lógiklaus.

Þetta er allt spurning um “Hver á að hafa valdið”? og ennfremur, “Á að vera eitthvað vald”?

Í Iron Man 2 er Anthony Stark beðinn um að afhenda Ríkinu tæknina á bakvið Járnmannsbúninginn. Tæknin sem Stark býr yfir gerir hann öflugri og valdameiri en Ríkið og það er ólíðandi. (Eða snýst það bara um peninga?). Ríkið reynir að sýna fram á að Stark sé of ábyrgðarlaus og léttúðugur til að búa yfir slíku vopni og fyrir þeim er hann einsog fyllibytta sem er með fjarstýringu á gereyðingarvopn sem geta grandað öllum heiminum. (Reagan, Jeltsin, Clinton, Bush?). En einsog fram kemur er ríkið spillt, eða í besta falli svo barnslega einfalt að það lætur spillta menn leika á sig – og gereyðingarvopnin eru best geymd í höndunum á einstaklingnum, sumsé Stark.

En það er annað. Fyrir þá sem þekkja ekki forsöguna þá gengur búningur járnmannsins fyrir orkuhraðli sem hann geymir í stað hjarta. Og orkuhraðallinn er að drepa hann, þetta annaðhvort segir okkur að valdið spillir (klisja) eða að valdið sé sjúkt í grunninn. Einu gildir hvort einstaklingurinn hefur það eða ríkið, valdið er  kanser. En hvað segir það okkur um framvinduna? Stark þarf að bjarga heiminum eina ferðina enn og sannar enn nauðsyn þess að einhver hafi “valdið”, og betra að það sé einstaklingurinn, enda er Ríkið oftar en ekki óvinurinn, eða bakhjarl hans. Og kanserið læknar hann með því að betrumbæta tæknina á bakvið orkuhraðalinn – er því hægt að komast hjá eðlislegum meinleika valdsins með því að skilja betur kjarnann í valdinu? En hvað er Stark þá? Ætti hann þá ekki að vera einhverskonar guð samkvæmt almennum skilgreiningum, á hið algera vald ekki að vera einungis á færi guðs?

En það er líklega í lagi svo fremi guð sé bandarískur. Hvers lenskur er okkar guð?

Einelti er fyndið

Ég hitti mann á röltinu í dag sem sagði mér að:

Guðlaugur Þór, erkiíhald, stærir sig af því í helgarblaði DV að hann hafi lamið “kommana” þegar hann var lítill. Þegar ég var lítill (tæp 90 kíló í dag, takk fyrir), var íslenska orðið einelti ekki komið til sögunnar, ekki nema sem afrakstur af tungubrjóti í mjög hraðri og rangri munnlegri endursögn af Einbjörnum sem eltust við Tvíbirni, og Ásbirni við ísbirni, og svo frmv. Sænska orðið “mobbing” var þekkt í kennslu- og uppeldislærdómsgeiranum – en nýttist ekki sem skyldi að öðruleyti því í millitíðinni var einhver stúpid pönkari sem innleiddi “pógóið” sem “mobbing” og úr var stórhættuleg framkoma og hegðun á mússikktónleikum. Stríðni var landlæg, sem og kúgun og níðingsháttur. Eina barnahegðunin sem fór útyfir það óafsakanlega, sem ég man eftir frá þessum tímum var hjá þeim sem höfðu verið alin upp til að hata “kommana” og níðast á þeim einsog mest þau máttu.

Reykjavík þess tíma var Reykjavík verkafólksins og það var enn við lýði að trygg atvinna fékkst ekki öðruvísi en með inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn. Það var ekki bara gleymska og heimska verkamannsins, að horfa fram hjá því hvaðan réttindi hans og grunnlífsskilyrði höfðu verið tryggð – sem réði ferð heldur hrein nauðsyn. Starfsviðtöl fóru fram með framvísun flokksskírteinis, en verkamaðurinn var samt alltaf með vont bragð í munninum útaf þessu og til að viðhalda sjálfsblekkingunni um að þetta væri hans eigið val, því enginn heilvita einstaklingur gengur ótilneyddur í Sjálfsstæðisflokkinn, gekkst honum uppí öfgum flokksins. Yfir matborðum verkafólksins var talað um hinn viðurstyggilega hrylling sem komminn var, húsbóndinn kunni ófáar sögur um fólsku, sviksemi og afbrigðilegheit kommans og að lokum bar fjölskyldan saman bækur sínar hversu mikla andspyrnu og heift hver fjölskyldumeðlimur hafði sýnt hommunum þann daginn.

Það gefur auga leið að litlu íhaldsbörnin fengu ekki gott veganesti út í lífið. Þau lærðu hatrið þaðan sem þau áttu síst að upplifa það, og síðan fóru þau út og börðu kommabörnin.

Einelti hvað? Til lukku, Guðlaugur minn, að hreykja þér af þessari hegðun í blaði sem annars er helgað baráttunni gegn einelti.
Og það er ekki seinna vænna að draga til baka þá staðhæfingin að Bjarni Ben gæti ekki staðið sig ver en núsitjandi ríkisstjórn, því hann er einfaldlega verri í prinsippinu, það væri einsog setja páfann yfir stjórn kvennaspítalans, eða láta Snoop Dog stjórna aðgerðahópi gegn mansali.

Ég skrifa þetta eftir minni, nafngreindar persónur vísa ekki í raunverulegar fyrirmyndir heldur frumspekilegar erkitýpur illskunnar.

Consenting Adults

Við erum soldið upptekin þessa dagana  af öllu sem viðkemur hruni, svikum, tryggðarrofum, landráðum, óskilgreindum fjármunum og áfallastreitu. En kanski er það bara ég. Og heiminn skynjum við að sjálfsögðu í gegnum, og með hliðsjón af þessum raunveruleika einsog hann hefur verið lagður upp fyrir okkur.

Ég sá þennan ágæta bandaríska trylli frá árinu 1992, Consenting Adults – eftir Alan J. Pakula, og gat að sjálfsögðu ekki annað en borið boðskapinn í sögunni við okkar reynsluheim.

Sagan segir frá hjónunum Richard og Priscillu Parker, sem eru leikin af hinum ægifögru Mary Elizabeth Mastrantonio og Kevin Kline. Parker hjónin eru í auglýsingageiranum, Richard er tónsmiður sem semur “jingles” fyrir auglýsingar og Priscilla er einhver óskilgreind kaupsýslukona sem að einhverju marki virðist taka þátt í rekstri bónda síns. Þau eru ósköp venjuleg hjón, lifa frekar leiðinlegu lífi í úthverfi, eiga dóttur sem á að uppfylla brostnar löngunarþrár föðurins og skulda þessi hefðbundnu ókjör af peningum.

Þá flytja nýir grannar í næsta hús; það eru hin svoðalega töff hjón Eddy og Kay Otis. Fyrstu kynni grannanna eru þau að Richard gægist um glugga á Kay að afklæða sig, en daginn eftir kynnir Eddy sig og vingast við tónsmiðinn.

Eddy er mikill talsmaður þess að lifa lífinu, ef hann er ekki að sigla á skútunni sinni þá er hann ýmist að stunda fallhlífarstökk eða þeysast um á mótórhjólinu sínu – eða að skáta arðbærar fasteignir til að versla. Hvar hann fær peninga fyrir þessu öllu er annað mál og leyndardómsfyllra; hann segist hafa unnið áður við tryggingasölu en sé núna “financial consultant” (sound familiar?)

Eddy býðst til að hjálpa Parker hjónunum að grynnka aðeins á skuldunum sínum, hann hleypur fyrir bílinn þeirra og svíkur út tryggingafé handa þeim. Nú er Eddy kominn vel innfyrir og nú hefst hann ötull við að telja hjónunum trú um að þau lifi leiðu og viðburðalausu lífi. Hann leggst af öllum þunga á Richard, af því hann veit að tónsmiðurinn laðast að Kay, bæði á þennan hefðbundna líkamlega þátt en líka af því Kay er mikil söngkona og hann vill hvetja hana til að leggja sönginn fyrir sig.

Síðan kemur stóra bomban þegar Eddy stingur upp á því að þeir Richard hafi makaskipti, eða öllu heldur, framkvæmi einhverskonar háþróaða nauðgun – þarsem hugmyndin er að býtta um rúm þegar eiginkonurnar eru sofnaðar og eiga mök við þær í svefnrofunum og sjá hvort þær verði einhvers varar.

Richard er tregur til en fellst á þetta á endanum. Daginn eftir bregður honum heldur betur í brún þegar hann kemur heim úr morgunjogginu og sér lögregluna, sjúkrabíla og slökkviliðið allt mætt að húsi Otisanna. Kay hefur sumsé verið barin til dauða með beisbollkylfu. Richard er handtekin, og Eddy sem segist hafa verið í öðru fylki þessa nótt telur lögreglunni trú um að Richard sé hættulegur geðsjúklingur sem hafi verið með kompúlsífa þráhyggju fyrir Kay.

Priscilla trúir því að Richard hafi myrt Kay og það er nokkuð ljóst að Eddy læddist ekki í rúmið hennar, eða hvað?. Síðan skilur Priscilla við Richard á þeim forsendum að dóttir þeirra eigi svo bágt og hún þurfi að hlífa barninu.

Richard fær einhverra hluta vegna lausn gegn tryggingu (líklega fjármagnaða með sölu á öllum hljóðfærunum hans), og kemst að því að Priscilla er ekki einungis búin að stofna fyrirtæki með Eddy heldur er líka farin að búa með honum og búin að taka hann inn sem föðurmynd dóttur þeirra.

Til að gera langa sögu stutta, finnur Richard eitt og annað sem bendir til sektar Eddys og nær konu sinni aftur á sitt band og kvöld eitt þegar Eddy er búinn að skipuleggja gildru fyrir Richard, drepa hjónin Eddy.

Myndin endar svo á því að hjónin eru föst í umferðarhnút á leiðinni heim úr vinnunni, og horfa á hvort annað og allt virðist vera sem fyrr, eða hvað?

Sumir myndu kalla þetta galla í handriti, eða dæmigerða Hollywood flýtilausn – að láta hjónin ná aftur saman eftir þetta. Af hverju skyldi Richard vilja taka aftur þessa konu sem hefur svikið hann svo? Útaf dótturinni, tja, mögulega – fólk heldur nú oft áfram að ala upp börnin sín þótt blóðforeldrarnir fari í sundur. Af hverju skyldi Priscilla vilja Richard aftur, mann sem ekki einungis hélt framhjá henni, heldur nauðgaði nágrannakonunni í pakkadíl sem fól í sér að nágranninn fengi að fara uppá hana sjálfa, með eða án hennar vitundar?

Þú ert með hjónaband, sem er ekki fullkomið en það meirogminna hangir einhvernveginn saman á hefðbundnum sameiginlegum leiða. Síðan mætir siðleysingi með fullt af óútskýrðu fjármagni á bakvið sig og fullt af freistingum í fanginu. Hjónin láta til leiðast, ganga inn í freistinguna og svíkja hvort annað while they are at it. Svikin komast upp en allra fanga er leitað til að leiða vitleysuna til lykta. En eftir stendur sú staðreynd að fólk sveik, sjálft sig og aðra. Hvernig tekur maður á því?

Eiga þeir sviknu bara að taka svikarana í sátt? Getum við lifað í slíkum handritsgalla? Getum við öll fundið sætti í þeirri staðreynd að við vorum nú einusinni öll “Consenting Adults”?

Aðgerðapakka “ríkisstjórnarinnar” kynntan í dag, kallaði vís maður “leiðir um bómullargjaldþrot”. Þegar ég var lítill var stundum spurt; hvort viltu heldur láta brenna þig til dauða eða kyrkja þig, hvort myndirðu frekar vilja láta slíta þig í sundur húðfrumu fyrir húðfrumu eða þurfa rúlla niður fjallshlíð í tunnu sem er full af eiturslöngum. Þessi “leikur” var soldið einsog “hvernig veistu að brundur flýtur á vatni”-gaggið, að því leyti að hrekkurinn fólst í því að láta þig svara “vitlaust”, þeir gálausu svöruðu því fyrst til að þeir vildu frekar deyja með þeim kosti sem fól í sér minni kvalir, en rétta svarið var auðvitað að maður vildi ekki láta drepa sig, ekki á neinn hátt.

Jóhanna og Steingrímur! Ef fólk er að verða gjaldþrota, tapa öllu, fjölskyldur í rúst og börnin með PTSD – amma og afi á götunni af því það eru ekki til peningar fyrir öldrunarheimilinu og niðurskurður á spítölunum, þá skiptir fæsta máli hvernig gjaldþrotið er fram sett, fólk vill fyrst og fremst ekki að allt sé hirt af þeim í refsingarskyni fyrir að atvinnupólitíkusar hjálpuðu bandídum að eyðileggja landið.

Þessi “ríkisstjórn” er gagnslaus, svo gagnslaus að ég held það skipti engu máli þótt Sigmundur og Bjarni taki við öllu heila klabbinu á morgun, það verður enginn munur. Please send in the Clowns!

(Ég hef það frá innsæd heimildum að upphaflega hafi einhverjir stungið upp á því að þetta væri kallað “úrræðapakki ríkisstjórnarinnar” en sú hugmynd var hlegin í hel, sumir sáu fyrir sér úr að halda ræðu, og aðrir bátsmenn róa báti með úri – og þar fram eftir götunum, sumir hlógu bara af því hugmyndin var svo mikil fjarstæða)

Um listamannalaun

Einhverjum er greinilega í mun þessa dagana að ala á óánægju fábjánanna með ríkisstyrkta menningu – væntanlega telja þeir að þetta sé hasarfrétt sem fær blóðið í landanum til að krauma og kaupa fleiri blöð (að svo miklu leyti sem blóðið er sjálft fært um að stökkva út í sjoppu og kaupa blöð, eða lesa vísi á netinu). En þetta er misskilningur, í dag er aðeins eitt sem fær blóðið í landanum til að krauma og það er Ásdís Rán, Movement One, Dragon Whips its Tail: Steingrímur, You Lose!

Öðrum (og sumir þessara annarra eru kanski sama fólkið og þessir einhverjir, að dulitlu marki allavega) finnst líka lágkúrulegt að giftast til fjár, það sé einhvers konar merki um dugleysi, hórerí, blóðsuguhátt, svik og svindl.

Þetta hefur fólk samt gert í gegnum aldirnar, og ekki bara konur og ekki bara listamenn. Sumir skaffa aðrir eyða, sumir hvorki skaffa né eyða, heldur skapa. Takið eftir því hve lík orðin “skaffa” og “skapa” eru. Er það tilviljun?

Ole Kirkegaard, Sam Mendes, Hallgrímur Helgason og James Cameron jafnvel (samt á gráu svæði), allt eru þetta listamenn sem hafa lifað á ríkum eiginkonum sínum sem “sköffuðu” meðan þeir “sköpuðu”.

Og hver er það annars sem tapar á hagsmunahjónabandi? Er það skaffarinn af því hann þarf að sjá fyrir einhverjum? eða er það sá sem haldið er uppi, af því hann er upp á annan kominn?

Sumt fólk hreinlega hneykslast á öllu. En sumir segja “Rich wife goes a long way” og öðrum finnst þetta kjánaleg umræða. Hver okkar er fábjáni?

samsæri Kiljans og hreinritunarfasistanna

Það kom til mín fullorðinn gamall maður um daginn og lýsti þeirri traumatísku lífsreynslu þegar hann sýndi Íslenskukennaranum sínum í barnaskóla ljóðin sín og sögurnar sínar. Íslenskukennarinn leit yfir bunkann og sagði: “Alltaf er skrifað með tveimur ellum, og rangur er ekki með ái, reglan er rangá, vangá, hangá og storknun”. Fullorðni gamli maðurinn sem þá var ungur nemandi sagði að hann hlyti að mega skrifa þetta svona fyrst Þórbergur gerði það, en þá hvessti Íslenskukennarinn á hann: “Þá ertu bara að stæla!”

Þessi litla dæmisaga getur jafnt átt við ekki neitt rétteinsog svo heilmargt, en ég heyrði einhverja umræðu á gufunni um daginn þarsem rætt var um hvernig þröngsýni bókmenntaheimsins stendur mögulega í vegi fyrir framþróun íslenskra bókmennta – sumsé hvernig reynt er markmiðað að því að steypa öllu í sama mót, fyrst í gegnum hvaða handrit forlögin velja, síðan hvernig þau eru prófarkalesin (eða ritskoðuð einsog góður maður fyrir sunnan segir), og að lokum í viðtökunni hjá gagnrýnendunum. Bara til að taka eitt dæmi, var minnst á einn rithöfund sem alla sína tíð hefur reynt að sprengja formið og búa til ný (yfirleitt við góðan róm) – en þegar síðasta bókin hennar var gagnrýnd var henni einmitt talið til lasts að fylgja ekki “hefðbundnum” frásagnarlínum, úrvinnslu og endi.

Komum við þá að Bjarkarsöngkonunum, fyrir 10 árum eða svo mátti engin söngkona hafa hærra raddsvið en neðri mezzósópran öðruvísi en svo að vera uppnefnd “Bjarkarwannabí”. Krúttin leystu þetta vandamál reyndar snyrtilega með því að taka allt sem “Bjarkar – var – legt” og skrúfa það uppí þvílíkar öfgar, álfatrúna, blóðhefndir og grimmd, náttúru- og hömmeradýrkun – að fljótt var Björkin orðin afturhaldsseggur af verstu sort.

En það er annað mál, fljótlega eftir að ég talaði við þennan fullorðna gamla mann bárust mér í hendur leyniskjöl. Sumsé transkript af hlerunum í húsi skáldsins árið 1928 sem áttu að fara inn á Wikileaks en enduðu einhverra hluta hjá mér. Stórfurðulegt, en magnað engu að síður.

Þar kemur fram að forsvarsmaður stjórnvalda, sem við skulum kalla X til að forða misskilningi, eða verja eftirlifandi ættingja hans, hvort sem þá kemur á undan – býður skáldinu að ganga inn í ákveðin helmingaskipti í íslenskum menningarumsvifum. Skáldið verður semsé “fyrst” skálda til að hljóðskrifa framburð (nótabene á þessum tíma var ekki búið að hamra inn stafsetningarsáttina víðfrægu), og þá verða öll skáld sem á eftir koma að þröngva sér inní ramma “réttrar” ritunar, ellegar verði þau kölluð eftiraparar. Þetta mun svo sverfa að þeim að möguleiki þeirra til að tjá sig eðlilega verður stórlega heftur. Stjórnvöld hafa svo ákveðinn glugga til að velja þóknanlega eftirapara eða fylgjendur nýja sáttmála til að halda á lofti og skáldið fær um leið yfirburðastöðu í íslenskri menningu.

En þú varst að tala um Þórberg, voru þeir ekki samtímamenn? Jú, vissulega, en þið verðið að hafa í huga að á þessum tíma skrifaði fólk eftir framburði og þá var það ekki enn “patented-licensed to” Kiljan. Allir skrifuðu á sinn hátt, enginn skrifaði eins – enda gerðust sögurnar á fleiri stöðum en bara inn í stofum réttritunarfasistanna í Reykjavík.

Og þetta er óbreytt í dag, í tali allavega! Helmingur allra Borgfirðinga sem ég hef hitt um ævina segir “fyr” en ekki “fyrr” og “kyr” en ekki “kyrr”. Þetta er staðreynd. Í Mývatnssveit segja menn “dáltið” og “soltið” en ekki “dáldið” og “soldið” – og feis itt, það er eiginlega enginn sem aksjúlí segir “dálítið” og “svolítið”

Ef þú syngur “því aldrei, aldrei gleymi – því aldrei, aldrei gleymi” ertu ekki bara að fara rangt með ljóðið, þú ert líka að níðast á laglínunni.

Það eru fleiri í eldri kantinum sem segja “dugar” en ekki “dugir” en við skulum láta i-fasismann eiga sig í bili, don´t get me started.

Menntamálaráðherra minnti á það nýverið, í óspurðum leiðréttingum, að eignarfallið “Ágústar” væri jafn rétt og “Ágústs” – en nú erum við komin off track.

Eftir stendur spurningin, hver hagnast á þessum helmingaskiptum í dag? Ef við gefum okkur að réttritunarfasisminn ávísi á umtalsverðari innihalds- og formlegri stífni.  Erum við ekki öll bara að tapa á þessu?

talað við ketti

flestir kattaeigendur þekkja það væntanlega að þurfa að banna köttunum sínum að koma með mýs, rottur og fugla inní hús. Ég átti einn kött sem kom með ánamaðka upp í rúm til mín, sá hét Skúmur, eða Angantýr samkvæmt systur minni sem líka þóttist eiga hann.

En á sama tíma vita flestir að kötturinn er að gefa, hann er að veiða fyrir heimilið – dýrin eru ætluð ykkur, annars hefði hann sjálfur étið þau úti. Gamla aðferðin til að venja þá af þessu er að slá þá, seinna hefur sú aðferð vikið fyrir því að skamma þá mjög hastarlega – helst þannig þeir hrökkvi í kút. Fátt annað virkar í raun, enda er almennt ekki hægt að kenna köttum neitt.

Uppað vissu marki allavega, ég var um daginn að borða soldið spagettí uppí rúmi og horfa á God´s Secret Army – ég veit að maður á ekki að borða upp í rúmi, maður gerir það nú samt. Allavega, kötturinn stekkur upp í rúm og vill skoða oní skálina sem ég var að borða uppúr, en ég skipa honum að fara í hinn endann og liggja mér til fóta. Og hann gerir það, merkilegt nokk. En hefði hann ekki hlýtt, þá hefði ég þurft að reka hann burt – sem væri stórtséð ekki það sem ég vildi – hann situr eða liggur yfirleitt hjá mér þegar ég er að horfa á myndir. Í þetta skipti mátti hann vera hjá mér bara ekki með trýnið oní pastaskálinni.

Á sama hátt viltu í raun ekki skamma hann fyrir að koma með mús inn á heimilið, af því þú veist að hann er að reyna að hjálpa til, en um leið viltu ekki fá mús inn á heimilið. Þetta er tricky.

Þið sem eigið semi gáfaða ketti, það myndi nægja ef þið gætuð útskýrt þetta fyrir kettinum, bara einu sinni, þá gætuði lifað sáttir og enginn þarf að móðgast. Þess vegna væri sniðugt að hafa vél sem þýðir yfir á kattamál bara við þetta tilefni, og bara einu sinni.

Þið spyrjið, en ef það væri til svona vél – af hverju þá ekki bara að nota hana alltaf og geta alltaf talað við köttinn?

Það er náttúrlega fáheyrð fásinna, kettir eru dýr, maður á ekkert að vera að tala við þá.

öfgaminnihlutahópar geta líka haft rétt fyrir sér

þessi fyrirsögn átti augljóslega að vísa til þess að Eiríkur slúðurpenni fékk yfirvöld í Sundhöll Reykjavíkur til að hækka hitann á gufunni – en eftir greinina hans Bubba um sakleysi Baugsmanna – þá er soldið freistandi að koma því að. En hvernig sem ég reyni þá finn ég engan flöt á því að halda því fram að Bubbi hafi eitkva til síns máls. Þannig að Eiríkur fær að eiga þetta. Það er alveg rétt hjá Eiríki, almennt séð var gufan of köld í Sundhöllinni – og honum er sómi að því að hafa fengið sínu framgengt.

1 x 12 – 6112h – 00607 – er seríal númerið á marshall boxinu sem ég er að reyna að selja, það kemur þessum pistli sama sem ekkert við. Sömuleiðis myndin af Jane Russell.

es: Engin hljóðskrift, eða svæðabundin mállýska hefur verið notuð í þessum pistli. Allt sem er stafað öðruvísi en Mál og menning kennir eru stafsetningar- og/eða innsláttarvillur. Nema eitt eða tvö orð!


Þótt  þráin eftir Þráni þráni Þráni þrá þráir Þráin Þráins

Skilduði þetta? Þetta er mikilvægt, hvort og hvernig þið skilduð þessa fyrirsögn ræður nokkru og segir um hvorumegin 5 prósentmarkanna þið liggið. Ef þið eruð nokkuð viss að þið skiljið þetta og finnst jafnvel fráleitt að þurfa að velta því fyrir ykkur, er ekki óvíst að þið tilheyrið öðrum hvorum hópnum. Ef þið eruð aftur fullviss þess að þið skiljið þetta ekki og finnst eiginlega alveg útí hött að þurfa að gefa því gaum, eða að nokkur annar skuli gefa því gaum – yfir höfuð – þá er ekki ósennilegt að þið eigið heima annað hvort í öðrum hópinum eða þá hinum. Svo eruða þau sem segjast skilja en skilja ekki í raun og hinir sem segjast ekki skilja en skilja svosem ágætlega ef útíþaðerfarið. Þau síðastnefndu gætu víst verið Sjálfstæðismenn eða flökunarfólk af Skaganum, eftir því hvernig á það er litið.

Mikið er talað um 5 prósentin hans Þráins, þessa dagana, reyndar er mikið talað alla daga og ekki síður um Þráin en aðra – og er ekki þarmeðsagt að sé á því mark takandi – en mér finnst umræðan ekki óskyld, mér, og öðrum sem að máli eiga, enda tilheyrum við, ég, og hinir ýmist fyrri hópnum eða þeim síðari – eftir því hvaðan er að lagt og hvort heildin sem um er rætt sé albær. Nú finnst mér ekki síst merkilegt að nokkrum skuli koma á óvart að öll íslenska þjóðin skuli ekki jafn gáfuð og mikið afburða og …. allt þetta dæmalausa afreks og greindar fólk sem við eigum. Mér kemur reyndar helst á óvart að Þráin skyldi skjóta á aðeins 5 prósent þjóðarinnar, og gefa sér sumsé að restin sé þá við meðalgreind eða uppúr. Ég hefði sjálfsagt giskað á mun hærri og stærri prósentu, upp undir 70 prósent jafnvel – og ég yrði sjálfsagt mjög sár og reiður ef einhver skyldi liggja á mér fyrir þá skoðun.

Það er sjálfsagt engin tilviljun heldur að algengasta kjörgengis markið í nútíma stjórnskipulagi skuli vera um og í kringum 5 prósentin, gefandi sér að stjórnmálaöfl sem ná ekki því marki samanstandi af fábjánum og fávitum – en ef við lítum á söguna má jafnvel sjá að margir flokkar sem byrjuðu sem fábjánaflokkar uxu uppúr því með tíð og tíma og urðu jafnvel ríkjandi öfl – fábjáni gærdagsins er fákappi framtíðarinnar – svo eru aðrir sem halda bara áfram að vera fábjánar.

Ég man eftir blaðamanni sem lagði það próf fyrir þrjá háskólastarfsmenn sem allir sóttust eftir því að verða HáskólaRektorar, að athuga hversu vel þeir væru að sér í Guðbergi Bergssyni, læsu þeir hann yfir höfuð og hvort þeim fyndist eða ekki það vera nauðsynlegt skilyrði fyrir þá sem eiga að leiða hið menntaða samfélag. Nú, er Guðbergur fyrir 5 prósentin eða er hann fyrir 95 prósentin? Nú gætu einhver, minnug spurningalistans sem var lagður til grundvallar hér í byrjun, klórað sér í handarbökin og nagað sig í hausnum yfir því að ekki megi fá það á hreint með lágmarks skekkjuöflum hversu margir í RAUN og VERU skilja Guðberg. En ég get glatt ykkur með því að það er reyndar hægt, og það hefur verið gert því Iðnaðarráðuneytið í samstarfi við Félagsvísindadeild framkvæmdi þessa bindandi könnun á útdögum og niðurstaðan er meira en lítið stórmerkileg, því þar kemur fram, svo ekki megi um villast, að lesendur Guðbergs tilheyri báðum hópum – bæði 5 prósentunum og 95 prósentunum – og þau sem skilja hann í RAUN OG VERU – dreifðust með markdreifðri tíðni yfir báða hópana. Og hver er þá niðurstaðan? Eigum við að leggja Guðberg til grundvallar öllum rekstri Háskóla Íslands eða eigum við að útrýma öllum listamönnum öðrum en þeim sem borga ekki bara með sér heldur borga helst líka fyrir alla hina líka? Þetta er snúin spurning. Það er talað um að sirka 5 prósent Íslendinga hafi komið öllum hinum (öllum hundrað prósentunum reyndar) í þá skuldasúpustöðu sem þeir eru í í dag, og þá erum við ekki einusinni að tala um alla ríkisstyrktu listamennina sem vissulega eru ómenni og svartstakkar upp til hópa.

Ég held að það geti varla staðist tölfræðilega að þessi 5 prósent Íslendinga sem teljast til fábjána, sé allur hópurinn sem vill ríkisstyrktan veg mannauðgunar sem minnstan – það er snúið vegna þess að það eru mörg 5 prósentin sem rúmast í heildinni, eitthvað í kringum 20 slík eða svo og hvaðan koma þau? Eru það 5 prósent Sjálfstæðismanna? 5 prósent Framsóknarmanna – 5 prósent af heildinni eða 5 prósent af útkomunni í síðustu alþingiskosningum? Er það marktækt úrtak, eða úrtækt marktak og var gert ráð fyrir að svarendur væru hugsanlega of heimskir eða of gáfaðir til að svara spurningum? þá má sjá að þessi útreikningur heldur ekki vatni ef litið er til þess að séu einungis 5 prósent Sjálfstæðismanna fábjánar, þá vitum við væntanlega að reikningurinn er ekki sem skyldi.

Ef talið berst svo að sjálfu Þráinseplinu, ef svo mætti segja – hvort styrkja eigi listamenn yfirhöfuð – þá er þar strax önnur 5 prósentabrella sem fljótt rekur á fjörur. Ég þekki mann sem var rekinn af Facebook á dögunum fyrir að halda því fram að það sé tómt mál að rýna í hverjir “blóðsugist” meira á ríkisspenanum, popparar, djassarar eða klassískir tónlistarmenn. Það er miklu meira en 5 prósent poppara sem eru þeirrar skoðunar að leggja eigi niður Symfóníuhljómsveit Íslands og Óperuhúsið og hætta öllum styrkjum til sígildrar tónlistar. Sömuleiðis virðist vera að 95 prósent djassara telji að klassísk tónlist eigi ekki að njóta neinna styrkja, og að klassískir tónlistarmenn níðist bæði á gömlu fólki, börnum og poppurum. Svo skilst mér að abstrakt hlutteiknarar leggist alfarið gegn því að skúlptúrískir formgerðarmenn fái listamannalaun, Kjarval sagði víst, á Hressó í gamla daga að; collagelistamenn ætti að skylda til að éta saurinn úr sér.

Sagan segir ennfremur að Arnaldur Indriðason hafi farið þess á leit við Sjón að nefna það í framhjáhlaupi við Hallgrím Helgason að hafa orð á því á morgunfundinum með Davíð hér um árið, að binda heiðurslaun Þráins Bertelssonar þeim skilyrðum að hann þyrfti að flytja á Raufarhöfn og mætti aldrei gefa út aðra reyfarabókmennt.

En nú erum við farin að fleipra. Pójntið er allavega það að þjóðin er ekki einn samstæður og samlitur hópur, ekki frekar en listamenn ein heild og samhent í einu marki að auðgun mannsandans – (flestir þeirra virðast reyndar undanbragðalaust stefna að því fyrst og fremst að forheimska þjóðina), –  miklu meira en 5 prósent listamanna eru fábjánar, og mér finnst ég, persónulega, ekki vera endilega að móðga neinn þegar ég segi að allavega hálf þjóðin er hálfviti, í mínum bókum, hvaða merkingu einhver skyldi síðan leggja í það.

Ég held aftur á móti að fólk gerði sér og umræðunni mikinn greiða ef það tæki sér smá hvíld frá hneykslunarfíkninni og rifjaði aðeins upp feril Þráins Bertelssonar – fram að stjórnmálaþátttökunni allavega. Því burt séð frá því hvort hann hafi átt að fá “Heiðurslaun” eða hvernig að því var staðið, og algerlega burtséð frá því hvort hann er bljúgur og orðvar málsvari þjóðar einsog td “Jóhannes í Bónus” – þá á hann stað í hjarta, huga og sögu þjóðarinnar bara fyrir þau listaverk sem hann hefur framleitt .

Og af bljúgum og orðvörum málsvarahöttum þjóðar, þá finnst mér varla málefnanlegt að hamast á Þráni fyrir lítilsháttar mennta- og listamannahroka – sem þætti ekki athygli á yrðandi, ef ekki stæði á okkur einmitt núna þessi holskefla lýðræðisástar, vald þjóðar og þjóðin versus elítan-bla bla. En vissulega er það þversagnarkennt að forvígismaður “flokks fólksins” skuli gera “fólkinu” svo lágt undir höfði. Þótt það sé rétt, eða hvernig sem á það er horft. Eða ekki? Lestu Guðberg? Yfir höfuð?

Það er ekkert ÓLEI að vera Sóley

Það er mikið býsnast yfir því þessa dagana hvað Sóley Tómasdóttir sé vond manneskja. Og hugsanlega gæti hún verið það, mögulega hleypur hún framfyrir ellilífeyrisþega í biðröðinni á bísaútdeilingunni, hún sparkar ekki bara líklega heldur mjög líklega í ketti sem hlaupa fyrir fætur hennar í stigaganginum þegar hún er að labba niðrí undirhvelfinguna að fara í uppáhalds spilavítið sitt, ég þekki allavega 4 persónulega (bestu vinir mínir síðan á fæðingadeildinni) sem hafa séð hana krafsa seðla uppúr UNICEF söfnunarbaukum.

Sumsé, allt er þetta mjög mögulegt og sjálfsagt mikið meira en mögulega líklegt og líklega mjög mjögulega satt.

En ég held afturámóti að fólk hafi engar forsendur fyrir því (burt séð frá fyrstuhandarvitnum sem ég get ábyrgst svo vel af því ég þekki þau síðan þau voru skilin frá lendum mínum í Síam-skurðinum mikla árið 1975), að ætla Sóleyju einhverja fólsku. Eini glæpurinn sem sannanlega mætti staðfesta að Sóley hefur drýgt er að vera annars Vinstri-græn, og hinsvegar að vera feministi, eða í öllu falli með feminíska slagsíðu.

Nú er það svo að Vinstri grænir eru oft á tíðum bara venjulegt fólk, ég á að heita Vinstri grænn en veit ekki hversu mikið lengur ég held það út horfandi uppá aðgerðaleysi VG gagnvart spillingu og óráðsíu Samfylkingarinnar hvað varðar úrræði handa skuldurum í landinu – en það er önnur saga. (Og þetta segir ekki heldur að ég vilji vísa til mín sem einhverskonar samdeilitákns fyrir venjulegt fólk, en ég er heldur ekki óvenjulegt fólk – ekki að neinu ráði allavega). Þrátt fyrir hin eðlislægu venjulegheit sem gegnsýra flest vinstri græn virðast margir gefa sér að vinstri græn líti á sig sem fullkomin – sem er runnið undan annarri stereótýpu sem gengur út á að Vinstri græn geri aldrei neitt nema GAGNRÝNA ALLT. Samanlagt skila þessar tvær bábiljur þeirri kreddu að Vinstri græn telji sig þess umkomin að GAGNRÝNA ALLT (og reyndar: RÍFA ALLT NIÐUR) af því þau eru sjálf fullkomin. Af því leiðir að duglegir talsmenn hópsins eru settir undir smásjá einsog Eiríkur slúðurberi sé að rannsaka Paris Hilton. Ég hygg að það væri reyndar alveg ákaflega intressant rannsóknarefni að bera saman skrif fordæmingarhersins á vísi, eyjunni og mbl þegar Sóley er annars vegar og blaðaumfjöll kjóla- og förðunarfasista á sömu miðlum þegar Lindsay Lohan fer eitthvað öfugt útúr kjólaskápnum sínum. Hin “kynjaða umræða” fer marga hringi og kynjast svo að ég veit eiginlega ekki lengur hvor mér finnst sætari, Jolie eða Pitt. Ég lærði það af ófáum kvenmentorum sem setið hafa á öxlum mínum að gagnrýni og aðferðir til gagnrýni og umfang og eðli gagnrýni sé ólík eftir því hvort kynið gagnrýnir eða er til gagnrýni – allri vigt þeirrar kynjuðu gagnrýni er beitt til að fordæma kynjaða gagnrýni sem Sóley og hennar lagskonur eiga að hafa beitt meðflokksmenn, allt hringsnýst fyrir kynjuðum augum og er til þess fallið að draga athyglina frá þeirri staðreynd að karlkyns fórnarlömb Sóleyjar hafa bæði neitað að taka þátt í fordæmingunni og jafnvel gert sitt til að stöðva þetta hringleikahús.

(Það er óþarfara en þurfi að taka fram að allt sem hér er lýst um orðræðu og þegnskoðun gagnvart Vg, speglast andhverft ef um væri að ræða “FEMINISTA” – það er “skemmtileg” lýðskoðun að þegar neikvæðni gætir í garð VG þá er öllu inni- og óbyrgðu hatri gegnt FEMINISTUM til tjaldað og fólska VG og FEMINISTA verður ein og sú sama. Og fyrst rætt er um hugtakasamruna þá er áhugavert að sjá hvernig gamla kommahatrið hefur að miklu leyti umpólast yfir í fordóma gagnvart jafnréttisbaráttuhluta Vg – og því fær Vg, sem að öllu jöfnu sleppur við kommahatrið, kommagrýluna yfir sig einsog brotsjá þegar neikvæða umræðan er ofaná, í gegnum samruna kommagrýlunnar og hægrimanna andóf gegn ungum feministum)

Flestir aðiljar í þeim “glæp” og “nauðgun lýðræðisins” sem átti sér stað í forvali VG hafa komið fram fyrir skjöldu og sagt sína skoðun, vissulega er margt af því leiðinlegt og sorglegt, einsog sérstaklega að gamlir valinkunnir vinstri menn hafa látið af störfum í kjörstjórn – allt er komið upp á borðið og burtséð frá herskara hatursmanna Sóleyjar, þá virðast flestir innan- og utankopps vera þeirrar skoðunar að orðið hafi leið mistök sem sem betur fer má laga fyrir næstu forvöl (forvalir?), en að sinni sé best að láta gott heita og halda áfram.

Lærdómurinn af þessu öllusaman er kanski ekki sá að það sæti miklum undrum að Sóley og önnur vinstri græn séu ekki fullkomin, heldur í raun að málefni flokkanna sem vissulega er þörf að ræða og komast að niðurstöðu um í sameiningu – sé ekki hægt að ræða á öðrum en þeim level sem fjölmiðlar eru allir sem einn komnir niður á – sumsé París Hilton levelinn.


One thought on “Blogg

  1. Pingback: Hello world! « gímaldin.com

Comments are closed.